1. Umferð Íslandsmótsins í Rallýkrossi

Fyrsta umferð Íslandsmeistaramótsins í Rallýcrossi fór fram 30. Apríl síðastliðinn á akstursíþróttasvæði AÍH í Hafnarfirði. 20 bílar voru skráðir til leiks í fjórum flokkum og var ljóst að baráttan yrði mikil í keppninni um Íslandsmeistaratitla.

3S7C7530
Baráttan í 4WD krónuflokki. Mynd: Bergur Bergson

Mesta athyglin fyrir keppni beindist að Jóni Bjarna Hrólfssyni en hann mætti á mjög öflugum Subaru Impreza. Jón er tvöfaldur Íslandsmeistari í Ralli en hann var einnig að keppa í Rallýcrossi í Bretlandi árið 2014. Nú mætti hann á sama bíl og hann var á í bresku mótaröðinni en þessi bíll er mun betur búinn en aðrir bílar í opna flokknum. Því var það Jón Bjarni sem stóð uppi sem sigurvegari í þeim flokk en Steinar Nói Kjartansson á Dodge Stealth varð annar. Águst Aðalbjörnsson varð þriðji þrátt fyrir að hann væri á “varabílnum“ en hann mun keppa á tveggja túrbínu Subaru Impreza það sem eftir lifir sumri.

3S7C7575
Jón Bjarni mætti á mjög öflugum Subaru Impreza. Mynd: Bergur Bergson

Í 4WD krónu flokki var búist við miklum slag milli Íslandsmeistarans frá því í fyrra, Páls Jónssonar og reynsluboltans Kristins Sveinssonar, báðir á Subaru. Þetta varð raunin þar sem þeir börðust um fyrsta sætið alla keppnina, Páll vann tvo riðla af þremur og fékk hann því að velja sér rásstað í úrslitum fyrstur. En það reyndist þó ekki nóg fyrir hann þar sem Kristinn endaði uppi sem sigurvegari á laugardaginn. Á eftir þeim kom Íslandsmeistarinn í unglingaflokki frá því í fyrra, Arnar Bjarnason á Toyota Corolla bíl sem að Ólafur bróðir hans hefur keppt á síðastliðin ár. Um fjórða sætið börðust Ágúst Örn Grétarson og nýliðinn Trausti Guðfinnson, báðir á Mitsubishi, og var það nýliðinn sem hafði betur að lokum.

Unglingaflokkurinn var áhorfendavænn að venju en talsverð afföll urðu í úrslita riðlinum í þeim flokki. Það var því Guðmundur Elíasson sem stóð uppi sem sigurvegari en hann og Arnar Viðarsson voru í miklum slag allan daginn, en Arnar varð frá að hverfa í úrslitunum. Það varð því Arnar Pálsson sem endaði í öðru sæti á undan Brynhildi Kristjánsdóttur.

3S7C7626
Svolítið var um mistök í unglingaflokki. Mynd: Bergur Bergson

Í 2000 flokki mættu sex keppendur og þar af tveir á mjög aflmiklum Honda Civic bílum, þeir Vikar Sigurjónsson og Íslandsmeistarinn frá því í fyrra Skúli Pétursson. Skúli féll þó úr leik en Vikar endaði aðeins í fjórða sæti, á eftir mun aflminni bílum. Það var Ragnar Bjarni Gröndal sem að stóð uppi sem sigurvegari á Toyota Corolla og Gunnar Karl Jóhannesson varð annar, á sínum 90 hestafla Honda Civic.

3S7C7485
Vikar í torfærum. Mynd: Bergur Bergson

Hér má sjá lokaúrslit keppninnar:

https://docs.google.com/spreadsheets/d/1OaOldkmxfDuTp_jjcsDaO4daIbAQeQKyfFLjjNG1OEs/edit?ts=5726674e#gid=1848254114

Næsta umferð í Rallýcrossinu fer fram sunnudaginn 5. Júní.

Leave a Reply