
Þegar 12 sérleiðum er lokið eru línur farnar að skýrast. Systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn hafa fjórar mínútur í forskot á Sigurð Braga og Aðalstein. Eyjólfur og Heimir koma svo í þriðja sæti öllum á óvart, eða þannig, innan um alla túrbóbílana eiga jeppar ekki mikinn séns á blaði. En Þeir Eyjólfur og Heimir eru bara hrikalega góð áhöfn á góðum bíl og þeir eru í þriðja sæti, svo einfalt er það.

Guðmundur Snorri og Magnús koma svo í öðru sæti í jeppaflokki en þeir voru kúplingslausir fyrir hádegi en tókst að gera við bílinn og eru búnir að keyra fulla ferð síðan. Þorkell og Þórarinn eru í þriðja sæti.

Slagurinn í Nýliðaflokki er í algleymi, í gær voru þeir Guðni Freyr og Einar með þægilegt forskot sem Gunnar Karl og Magnús hafa nú tekið af þeim og leiða flokkinn. Guðni sægði í viðtali í gær að hann væri ekki góður í að halda fengnum hlut, gengi betur að sækja. Hvort það er rétt fáum við að vita á morgun.
Feðgarnir Magnús og Ragnar gerðu víst einhver mistök í keppninni og fengu 5 mínútna refsingu. Fyrir vikið tapa þeir einu eða tveimur sætum. Það er leiðinlegt þar sem þeir eru búnir að keyra listavel og allt stefndi í hörkuslag milli þeirra og Skafta og Gunnars um þriðja sætið í Nýliðaflokki.

Þó línur séu farnar að skýrast er rétt að nefna að Kaldidalur verður ekinn í tvígang í fyrramálið og Djúpavatnið í lokin. Það er heill hellingur af kílómetrum og heljarinnar áskorun. Rall er ekki búið fyrr en það er búið…