Í upphafi skyldi endinn skoða

Sigurður Bragi og Aðalsteinn leiða Íslandsmótið eftir RallýReykjavík 2016.  það að keppa til sigurs í Íslandsmóti annarsvegar og að keppa til sigurs í einstakri keppni fer ekki alltaf saman.

Annað sætið í þessari keppni var markmið þeirra ef fréttaritari motorsport.is skildi Aðalstein rétt í lok annars dags.  Hlutirnir fóru reyndar betur en ætlað var þar sem þeirra helstu keppinautar, þeir Henning og Árni lentu í vandræðum strax á fyrsta degi og enn meiri vandræðum á öðrum degi.  Það var heldur ekki að skemma áform þeirra að þau Baldur og Hanna sem voru í þriðja sæti í Íslandsmótinu duttu úr leik með úrbrædda vél.

En til að standa uppi sem sigurvegari þarf stundum að nálgast hlutina öðruvísi.  Landslagið í Íslensku ralli er þannig að þeir sem klára eru líklegastir til að hampa titli.  Gott dæmi eru þau systkin Daníel og Ásta sem unnu þessa keppni en eiga mun minni möguleika á titli en þeir Sigurður og Aðalsteinn.  Samt efast fréttaritari ekki um að þau systkin séu hraðari en þeir félagar.  En kanski er það vegna þess að Sigurður keyrir bara upp á að klára og safna stigum, hver veit?

Keppnin var áfallalítil hjá þeim nema hvað Sigurður var sárþjáður af flensu allan tímann og var til að mynda ekki til viðtals að loknum öðrum degi vegna þess.

motorsport.is óskar þeim félögum til hamingju með árangurinn og hlakkar til að sjá þá í næstu keppni.

Leave a Reply