Einvígi keppninnar

Þeir Gunnar Karl og Magnús á Subaru mættu til keppni með það eitt á dagskránni að vinna sinn flokk.  Guðni Freyr og Einar, einnig á Subaru, reyndust vera með það sama á dagskránni og var því ljóst frá upphafi að hér yrði hart barist.

Guðna og Einari gekk betur á fyrsta degi, náðu 45 sekúndna forskoti og einhverjir féllu í þá gryfju að ætla að nú væri þessi slagur búinn.  En sú var ekki raunin.  Eitt er að ná forskoti, annað er að halda því.  Guðni sagði í lok fyrsta dags að hann hefði áhyggjur af þessu því hann væri frekar lélegur í að halda fengnum hlut, liði hins vegar betur í „Attack mode“, sóknarham.  Gunnar Karl fór ekki leynt með vonbrigðin en minnti á að rallið væri rétt að byrja, mikið rétt hjá honum.

Dagur 2 byrjaði vel hjá Gunnari og Magnúsi þar sem þeir minnkuðu forskot Guðna og Einars niður í 16 sekúndnur á Heklu, fyrstu leið föstudagsins.  Á næstu leið tóku Gunnar Karl og Magnús 28 sekúndur af Guðna og Einari sem sprengdu dekk og misstu við það forustuna í flokknum til Gunnars Karls og Magnúsar.

Þegar búið var að keyra Heklu í þriðja sinn voru Gunnar Karl og Magnús með 45 sekúndna forskot á þá Guðna Frey og Einar. Áfram héldu þessar áhafnir að vinna hvor aðra sitt á hvað og í lok annars dags var munurinn milli þeirra 28 sekúndur, Gunnari Karli og Magnúsi í vil.

Strax í upphafi þriðja og síðasta dags kviknaði á einhverju hjá Guðna Frey og Einari, eða slokknaði á einhverju hjá Gunnari Karli og Magnúsi.  Guðni og Einar unnu allar leiðar þessa dags mena síðustu leiðina og stóðu uppi sem sigurvegarar, 34 sekúndum á undan Gunnari Karli og Magnúsi.  Hér sannaðist kanski það sem Guðni sagði í lok fyrsta dags, að hann væri betri þegar þyrfti að sækja.

Þetta var hörku barátta og virkilega gaman að sjá þessar áhafnir berjast og skipta sætum svo oft.  Það þarf talsverðar taugar til að halda út svona slag án þess að gera mistök, sem hvorugur gerði svo talandi sé um.  Samt gerðu báðar áhafnir mistök, guðni og Einar spregdu á Bjallahrauni og Gunnar Karl keyrði út af á Kaldadal.  En í slag eins og þessum eru allra augu á þeim því við þessar aðstæður gera menn mistök.

motorsport.is óskar þessum tveimur áhöfnum til hamingju með árangurinn og hlakkar til að sjá þá aftur í álíka slag.

Leave a Reply