Hjartastopp á síðustu leið

Félagarnir Guðmundur Snorri og Magnús leiddu Íslandsmótið í jeppaflokki fyrir þessa keppni og ætluðu sér að halda því, helst að tryggja sér titilinn í þessari keppni og sá draumur var ekki svo ýkja fjarlægur.

Fyrirfram var ljóst að þeim gæti reynst erfitt að vinna þá Eyjólf og Heimi, bæði er munurinn á bílunum mikill og svo hefur Eyjólfur oft sannað sig sem hörkuökumaður.  Vitandi að bíllinn yrði fyrirstaða var ákveðið að reyna ekki að sanna að Guðmundur væri betri ökumaður, Eyjólfur var ekkert inni í myndinni til Íslandsmeistara en það voru hins vegar aðrir og nær að huga að þeim Þorkeli og Þórarni á Toyota HiLux.  Sighvatur og Kári á MMC mættu til leiks en fóru stutt og því ljóst að ein tiltekin óskastaða var útilokuð, þ.e. að Eyjólfur ynni, Guðmundur Snorri í öðru sæti, Sighvatur í þriðja og Þorkell í fjórða, þannig yrðu Guðmundur Snorri og Magnús Íslandsmeistarar.

Þá var bara að keyra þétt, ekki ofbjóða bílnum og vona að eitthvað kæmi fyrir hjá annaðhvort Eyjólfi eða Þorkeli.  Að bíða eftir að eitthvað bili hjá Þorkeli svo hann falli úr leik gæti krafist talsverðrar þolinmæði og talsvert lengri tíma en þriggja daga keppni svo aunun beindust að Eyjólfi og Heimi á nýsmiðuðum Cherokee.  En það dugði ekki að horfa á aðra, það þurfti líka að klára sitt, keyra alla kílómetrana nógu hratt og skila sér í endamark.

Þeir félagar stóðu fullkomlega undir væntingum, óku á flottum hraða og settu sig lítið í vandræði.  Samt, í upphafi annars dags fór kúplingin eitthvað að dofna, þ.e. engi skipti þó stigið væri á hana, það skipti engu.  Í ljós kom að kúplingsvökvi var eitthvða vangæfur og við endurnýjun á honum í hádegishléi fór kúplingin aftur að skila sér.

Þegar tvær leiðar voru eftir af rallinu féllu þeir Eyjólfur og Heimir úr leik með bilaðann mótor og sáu Guðmundur Snorri og Magnús sæng sína útbreidda, bíllinn í góðu lagi og nú þurfti bara að „dóla“ tvær leiðir í endamark, enda voru þeir með mikið forskot í jeppaflokki.

Allt gekk þetta eins og í sögu og þegar þeir ræstu inn á síðustu leið voru þeir afslappaðir og ljóst að titillinn væri í höfn, handan hornsins.  Reyndar hafði Guðmundur Snorri orð á því að e.t.v. hefðu þeir ekið örlítið hraðar en þeir ætluðu, þeir tóku t.d. sama tíma og Sigurður Bragi og Aðalsteinn á Henglinum, en þeir eru nú bara á MMC Evo 7 sem er enginn jeppabúðingur.

Um miðja leiðina hrundu himnarnir, á beinum kafla, ekkert að gerast, glumdi allt í einu ógurlegur hávaði, titringur og bíllinn leitaði út á hlið.  Nú var eitthvað mjög vont að gerast.  Voru titildraumarnir bara hyllingar, er HiLuxinn ósigrandi?

Talandi um HiLuxinn, þeir félagar óku einmitt eftir honum áleiðis að Heklunni daginn áður á mjög slæmum vegi, þá hrundi önnur hliðin af HiLuxinum sem þó hélt áfram.  Magnús hafði að orði að HiLuxinn væri eins og ormur, skipti engu máli hve oft þú slitir hann í sundur, hann héldi alltaf áfram.

Félagarnir gátu ekki annað en stoppað enda bíllinn ófær um að aka beina línu.  Ljóst var að framhásingin var búin að slíta sig lausa og drifskaft farið í sundur.  „Það eru enn fjögur hjól undir bílnum“ hefur Guðmundur eflaust hugsað, enda var afráðið að setjast bara aftur inn í bíl og dóla af stað.  Í þann mund kom bíll sem þeir hleyptu fram úr og óku svo inn á veginn og áttuðu sig ekki á því að það var annar bíll kominn og þeir í raun töfðu þá áhöfn.  Hægt og bítandi nálgaðist endamarkið með titilinn þeirra, hægt og bítandi versnuðu hljóðin og vilji bílsins til að hlíða stýrinu minnkaði hratt.

En í endamark komust þeir, löguðu bílinn svo hægt væri að keyra í Perluna og titilinn var þeirra.

motorsport.is óskar þeim félögum til hamingju með titilinn og hlakkar til að sjá þá í næstu keppni.

Leave a Reply