Hraustlegur haustsprettur

þann

Þegar áhorfendur hafa orð á því hversu erfitt sé að koma auga á bíla í ralli koma í endamark í hnausþykkri þoku, má sannarlega geta sér til um hversu erfitt sé fyrir keppendur að sjá veginn sem þeir leitast við að aka eftir. Þannig voru einmitt skilyrðin í haustspretti BÍKR sem fram fór í Hveradölum síðastliðinn laugardag. Haustspretturinn var lokarallið á keppnisárinu og rétt eins og vanalega þegar akstursíþróttamenn koma saman er andinn góður, hvernig svo sem viðrar.

123
Ljósmynd/Kristinn Eyjólfsson

 

Vegalengd leiðarinnar sem ekin var er tæpir þrír kílómetrar og ók hver ökumaður leiðina þrisvar í hvora átt. Sextán keppendur mættu til leiks og þrátt fyrir lélegt skyggni var lítið um óhöpp. Óhapp varð þó þegar Almar Viktor Þórólfsson á Subaru Legacy velti bílnum en slys urðu ekki á mönnum þó að bíllinn sé nú eitthvað laskaður. Þórður Bragason á Jeep Cherokee fékk að reyna það hvernig er að missa allt sem kalla má rúðuþurrkubúnað í hellidembu, þoku og drullu. Og auðvitað sprungu einhver dekk, eins og gerist í ralli.

14680992_10207657277691313_5615416153788316284_o
Ljósmynd/Sverrir Gíslason

 

Það er óhætt að segja að keppandinn Hjörtur Pálmi Jónsson hafi vakið einkar jákvæða athygli þar sem hann mætti hress til leiks á Bondunni (BMW með Hondu vél sem er í eigu Hilmars B. Þráinssonar) en býsna langt er um liðið síðan Hjörtur hefur ekið í ralli. Rúmur áratugur er frá því hann keppti síðast og skrifaði hann eftirfarandi á Facebooksíðu rallýáhugamanna að keppni lokinni: „Gaman að fá tækifæri til að dusta rykið af gallanum og skónum sem ég sótti uppí Árbæjarsafn í morgun.“

088
Ljósmynd/Sverrir Gíslason

Besta tímanum, 1:50, náði Viðar Þór Viðarsson á Jeep Comanchee og í öðru sæti, á tímanum 1:53 varð Guðni Freyr Ómarsson á Subaru Impreza. Átta sekúndum lengur, eða á tímanum 2:01, var Hilmar B. Þráinsson á Bondu.

mallabrand@gmail.com

Leave a Reply