Áramótakveðja

Árið 2016 var skemmtilegt mótorsprtár, mikið um tilþrif að venju og dramatíkin átti sinn þátt líka.

Þetta fyrsta ár motorsport.is var frekar magurt hvað fréttaflutning varðar, fáar keppnir voru teknar fyrir en þeim keppnum sem fjallað var um var komið þokkalega til skila vonum við.  Við stefnum auðvitað á að gera enn betur á komandi ári, 2017, vefurinn hefur fengið góðar viðtökur og því ætlum við að fylgja eftir með mikið meiri umfjöllun og vonumst líka til að fleiri pistlahöfundar sendi okkur greinar.

Það er mikill uppgangur í mörgum greinar mótorsportsins, torfæran blómstrar, rallið virðist vera á uppleið, akstursíþróttamaður ársins kemur úr driftinu sem verður þeirri grein vonandi lyftistöng.  Rallýkrossið og spyrnugreinarnar standa alltaf fyrir sínu.  Öflugt og gott keppnishald, ásamt mikilli uppbyggingu á svæði Kvartmíluklúbbsinns hefur skilað skemmtilegum keppnum og sú uppbygging er alls ekki búin.

Dramatíkin átti stórann þátt í úrslitum Íslandsmótsins í ralli.  Þeir Sigurður Bragi og Aðalsteinn voru með titilinn nánast í hendi sér fyrir síðustu leið síðustu keppninnar en þá bilaði bíllinn og systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn stóðu uppi sem meistarar.  Ásta var jafnframt kjörin akstursíþróttakona ársins.  Þessi kona er ótrúleg, búin að keppa frá 16 ára aldri, búin að landa 3 Íslandsmeistara titlum og var að auki meistari í Bretlandi þegar þau systkin kepptu ytra fyrir nokkrum árum.

Snorri Þór Árnason átti torfæruna skuldlausa í ár, hann vann og vann og ekkert virtist geta stöðvað hann og svo fór að hann landaði sínum þriðja titli í röð, frábær árangur hjá frábærum íþróttamanni.

Aron Jarl vann Íslandsmótið í drifti og var kjörinn Akstursíþróttamaður ársins.  Aron á hvorttveggja mjög vel skilið, frábær íþróttamaður sem leggur mikið upp úr undirbúningi og skilar árangri í takt við það.  Aron hefur líka þá eiginleika að vera sportinu til framdráttar, er góð fyrirmynd í alla staði.

Nú er talað um reglubreytingar í ralli.  motorsport.is hefur fyrir víst að reglum í jeppaflokki verði breytt til einföldunar en mestu breytingarnar verða þó í þeim flokki sem nú heitir 4×4 NonTurbo og einnig í „efstu deild“, GrN.  4x4NT mun að öllum líkindum skipta um nafn en mesta breytingin verður sú að eindrifsbílum verður einnig heimil þátttaka í flokknum.  Mesta breytingin, ef af verður, er samt sú að nú er rætt um að leyfa öflugri bíla en nú er.  S2000 bílar verða líklega leyfðir og rætt hefur verið um flokk sem þekkist undir nafninu B13 í breskum reglum.  Þetta gæti gerbreytt Íslensku ralli og við bíðum bara spennt.  Keppnisráð í ralli hefur málið á sínu borði og hefur ekkert gefið úr ennþá.

2017 verður öðruvísi en fyrri ár, bæði koma reglubreytingar í ralli til með að valda þeim og einnig að margir torfærubílar hafa skipt um eigendur að undanförnu.  Stæstu fréttirnar úr torfærunni eru þær að Snorri Þór Árnason hefur selt sinn bíl, Kórdrenginn.  Þór Þormar Pálsson keypti hann og mun aka honum næsta sumar.  Þór hefur ekið Spiderman og þykir fréttaritara motorsport.is sá bíll ekki hafa hjálpað ökumanninum að sýna sitt besta svo nú fáum við að sjá hvað Þór getur í raun.

motorsport.is óskar öllu aksturíþróttafólki gleðilegs nýr árs.

Leave a Reply