
Það má í raun skipta Hellukeppninni í tvennt. Fyrst komu þrjár hefðbundnar torfæruþrautir svo kom tímabraut, svo áin og loks mýrin.
Sumum þótti ljóst að keppnin myndi ráðst í fyrstu þremur þrautunum þó vissulega gæti allt gerst eftir það. Allavega mátti gera ráð fyrir að þeir sem ekki næðu góðum árangri í fyrstu þremur þrautunum ættu lítinn möguleika á sigri.
Fyrsta braut.
Strax í fyrstu þraut var ljóst að Guðbjörn Grímsson á Kötlu yrði ekki með þar sem bíllinn var bilaður uppi á viðgerðarsvæðinu og viðgerð tæki of langan tíma.

Ingólfur Guðvarðarson á Guttinn reborn ásamt Magnúsi Sigurðssyni á Kubbnum náðu bestum árangri í fyrstu þraut. Ingólfur náði svo aðeins 20 stigum í annarri þraut og var því ekki mikið í toppslagnum eftir það, Magnús hinsvegar keyrði nánast mistakalaust það sem eftir lifði keppninnar á eina fjögurra cylendra bílnum í torfærunni.
Geir Evert á Sleggjunni hitti illa á lokabarðið í fyrstu þraut og komst ekki upp, það voru mikil vonbrigði og Evert setti mikla pressu á sjálfan sig með þessu atviki. Sömu sögu er að segja af Guðmundi Inga á Ljóninu. Þór Þormar á THOR komst einungis hálfa braut, stoppaði á kviðnum með fá stig og var þar með nánast búinn að kvitta sig út úr toppslagnum. Valdimar Jón Sveinsson stoppaði á sama stað að því er virtist með bilaða sjálfskiptingu.

Atli Jamil fór listilega upp sama barð en sveif hálfur út fyrir endahliðið og fékk einhverja refsingu.
Önnur Braut.
Geir Evert sveif listilega upp aðra braut en margir lentu í vandræðum með barð í henni miðri, ýmist komust ekki upp, þurftu að bakka og reyna aftur eða veltu niður. Þeir Geir Evert, Atli Jamil og Guðmundur Ingi komust allir upp en Atli þurfti að bakka og reyna aftur við barðið í brautinni miðri. Árni Kópsson hitti mjög illa á barðið í miðri brautinni og kútvelti Heimasætunni. Þór Þormar hitti líka illa á þetta barð og keyrði út úr því og fór ekki lengra í þeirri braut.

Þriðja þraut.
Það er mat fréttaritara motorsport.is að það hefði verið hægt að gera meira úr þessari þraut af hendi keppnishaldara, þetta reyndist frekar auðveld þraut, flestir fóru upp eða nánast upp en hér reyndi á ökuleikni manna öðru fremur. Refsingar urðu helsta málið og þeir þrír sem voru í toppslagnum voru engin undantekning.

Staðan eftir fyrstu þrjár brautir var eftirfarandi.
Atli Jamil Ásgeirsson | 890 |
Geir Evert Grímsson | 860 |
Guðmundur Ingi Arnarson | 770 |
Gestur Jón Ingólfsson | 750 |
Magnús Sigurðsson | 720 |
Ingólfur Guðvarðarson | 660 |
Elías Guðmundsson | 600 |
Elías Guðmundsson á Ótemjunni er eins og sést aðeins í 7. sæti en hann átti eftir að láta að sér kveða eða öllu heldur áttu aðrir ökumenn eftir að tapa niður þeim árangri sem þeir höfðu verið að byggja upp.

Meira um seinni helming keppninnar í annarri frétt.