Hella 2017 – Síðari hluti

Fjórða braut Hellu torfærunnar er hefðbundin tímabraut en tvær síðustu eru mjög sérstakar brautir sem einungis sjást á Hellu.  Fyrst má nefna ánna, þar sem bílarnir aka á vatni.  Þessi braut er löngu orðin heimsfræg og hafa myndskeið af bílum í ánni ratað í ýmsa fjölmiðla um allan heim.  Síðasta brautin, mýrin, er ekki jafn fræg en stórkostleg engu að síður.

Við höldum áfram að fylgjast með keppninni og byrjum á tímabrautinni.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Atli Jamil velti bílnum í tímabrautinni og tapaði forustunni

Það stefndi allt í hörkuslag milli Atla Jamil og Geirs Evert enda aðeins 30 stig milli þeirra þar sem Atli Jamil leiddi keppnina.  Atli Jamil klúðraði þessu gersamlega þegar hann velti bílnum í tímabrautinni, aðeins og ákafur, fór of hratt yfir hól, í beygju og bíllinn valt.  Atli Jamil er alls ekki neinn reynslubolti og því geta svona mistök komið upp, en þetta voru dýr mistök.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Lögreglan var við ána og mældi hraða bílanna á ánni.

Geir Evert var með keppnina í hendi sér fyrir ánna, með rúm hundrað stig í forskot á Guðmund Inga sem var í öðru sæti, Gestur Jón á Draumnum var kominn í þriðja sætið og Magnús á Kubbnum í því fjóðra.  Nú var bara að halda haus, en það er ekkert öruggt þegar kemur að ánni, nema það eitt að allt getur klikkað.

Geir Evert stoppaði í ánni, komst yfir á endanum en á afleitum tíma og tapaði 200 stigum á Guðmund Inga sem var þarmeð kominn í forustu.  Atla Jamil gekk enn verr í ánni, kláraði ekki og var algerlega kominn úr allri keppni um sigur, keppni sem hann leiddi örskömmu áður.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Elías á Ótemjunni skilað sér á fullri ferð yfir ána.

Fyrir síðustu braut, mýrina, var Elías á Ótemjunni aðeins 7 stigum á undan Magnúsi á Kubbnum en báðir skiluðu sér vel áfram í ánni.  Það leit úr fyrir hörkuslag um þriðja sætið en líkt gangi keppninnar breyttist það í slag um annað sætið sem Magnús vann með 13 stigum þar sem Elías felldi eina stiku í mýrinni en Magnús fór hana án refsingar.

Fyrst Magnús og Elías voru í öðru og þriðja sæti er ljóst að Guðmundur Ingi og Geir Evert voru ekki báðir fyrir framan þá, hvað gerðist?

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Magnús á Kubbnum fór létt yfir ána.

Geir Evert „drekkti“ Sleggjunni í ánni.  Einhver skynjari, eða eitthvað, skemmdist eða bara „blotnaði“ og bíllinn steinstoppaði í upphafi mýrinnar svo hanns för um mýrina varð ekki löng og draumurinn um sigur fauk endanlega út um gluggann, sat fastur í drullunni.

Eftir stóð Guðmundur Ingi á Ljóninu sem sigurvegari.  Verðskuldaður sigur sem vannst með færri mistökum en aðrir gerðu.  það spiluðu saman góður bíll og ökumaður.

 

Leave a Reply