
Fyrir keppnina var ljóst að Snorri Þór sem fór með sigur í fyrra væri ekki með, hann var búinn að selja bílinn og Þór Þormar tekinn við honum. Hins vegar voru minni væntingar gerðr til Þórs þar sem hann á bæði eftir að venjast nýjum bíl og aðrir voru líklegir til afreka.

Guðmundur Ingi Arnarson á Ljóninu þótti líklegur en sömu sögu var að segja um Geir Evert Grímsson á Sleggunni, Atli Jamil á Thunderbolt og einnig má nefna „gömlu kempuna“ Árna Kópsson á Heimasætunni.

Guðbjörn Grímsson á Kötlu mætti einnig en Katla, turbo tröllið, bilaði hins vegar rétt fyrir keppni svo Guðbjörn var ekki með í keppninni, það var mjög miður einkum þar sem til stóð að hraðamæla bílana á ánni en Guðbjörn á hraðamet á ánni.
Úrslit á Hellu hafa oft komið á óvart enda geta lítil mistök kostað mörg stig. Einnig hafa bilanir verið keppendum erfiðar þar sem hart undirlagið tekur á drifrásinni og vatnið í ánni getur leikið rafkerfi og vélar grátt ef illa fer.
Keppnin í ár var vel sótt og áhorfendur voru um 3000 sem er frábært. Áhuginn á torfærunni fer vaxandi, bílum fjölgandi og einnig eru þetta orðnar mun meiri „græjur“ en tíðkaðist. Í dag eru margir bílar að slá í þúsund hestöfl og dekkin orðin mun öflugri en tíðkaðist fyrir ekki mörgum árum síðan.
motorsport.is var með mann á staðnum og fjallað verður um keppnina í nokkrum greinum hér á eftir.