Sjö konur keppa í rallý um helgina

Oft hefur verið fjallað um hversu fáar konur stunda akstursíþróttir hér á landi. Því er um að gera að vekja athygli á þeirri jákvæðu þróun sem orðið hefur og fagna því að hvorki meira né minna en sjö konur eru skráðar í Bílanaustrall AÍFS sem fram fer næsta föstudag og laugardag.

Í ár keppir kvenpar en það er æði langt síðan slíkt hefur sést í sportinu á Íslandi. Sennilega ekki síðan þær Ásta Sigurðardóttir og  Tinna Viðarsdóttir kepptu saman árið 2009 (eða um það bil). Ábendingar um fleiri kvenpör eru vel þegnar.  Nú eru það þær Hanna Rún Ragn­ars­dótt­ir og Hulda Kolbeinsdóttir (þær má sjá á meðfylgjandi mynd) sem keppa á Subaru Impreza í non turbo flokki og saman mynda þær PRAMA Rally Team. Hanna Rún hefur áður keppt en færir sig nú yfir í ökumannssætið. Hulda hefur ekki keppt áður og markar þetta sumar vonandi upphaf langs og góðs ferils í sportinu. Enda er rallý ávanabindandi eins og frægt er orðið og ekki auðvelt að slíta sig frá því.

Þá er eftir að kynna til leiks fimm konur til viðbótar og næst í röðinni (sem raunar er framar í rásröðinni) er Elísabet Sigríður Kolsöe sem er aðstöðarökumaður Gunnars Karls Jóhannessonar. Hún hefur töluverða reynslu af akstursíþróttum og hefur líka áður keppt með Gunnari Karli.

Katrín María Andrésdóttir er aðstoðarökumaður Baldurs Haraldssonar. Hún er fulltrúi AKÍS í vinnuhópnum FIA Women in Motorsport og ætlað er að efla og auka hlut kvenna í akstursíþróttum. Nánar má lesa um vinnuhópinn hér.

Emelía Rut Hólmarsdóttir Olsen er aðstoðarökumaður Ragnars Bjarna Gröndal, Júlía Jóhannesdóttir aðstoðarökumaður Sævars Snorrasonar og að lokum er það undirrituð, Malín Brand, sem er aðstoðarökumaður Péturs Ástvaldssonar.

Þetta verður spennandi og án efa forsmekkurinn af því sem koma skal í akstursíþróttum hér á landi sem og annars staðar, enda áhuginn á sportinu óháður kyni, aldri eða öðru.

mallabrand@gmail.com 

Leave a Reply