Keppir með langafa í ralli

Dali2Örn „Dali“ Ingólfsson er röllurum vel þekktur, enda hefur hann keppt í 40 ár og er enn að.  Á langri ævi hefur Erni auðnast börn, barnabörn og barna-barnabörn.  Eitt þessara langafabarna Arnar er Bríet Fríða Ingadóttir.  Bríet er 16 ára og má keppa sem aðstoðarökumaður sem hún og gerir í Rallý Reykjavík sem hefst í dag.

Örn "Dali" Ingólfsson  mynd/Nína Ingólfsdóttir
Örn „Dali“ Ingólfsson  mynd/Nína Ingólfsdóttir
Bríet Fríða Ingadóttir
Bríet Fríða Ingadóttir

Þau keppa á Trabant sem Örn hefur keppt á undanfarin ár, mörg ár reyndar þó ekki sé alltaf sami bíllinn í notkun.  Aðspurður hefur Örn sagst hafa „tekið þátt“ í mörg ár en gerir lítið úr því að hann hafi „keppt“.  Hraðinn er kanski ekki í takt við hröðustu bílana en rallý er fyrir alla og það gerir rall að skemmtilegri íþrótt fyrir vikið.

Örn fagnaði áttatíu ára afmæli í júlí síðastliðnum og Bríet fagnaði sextán ára afmæli sléttum mánuði fyrr.  Örn var því 64ra ára þegar Bríet fæddist og var þá öldungurinn í rallinu, það hefur ekki breyst, Örn er sami öldungurinn, síungur í anda, heilsuhraustur og hefur þann einstaka eiginleika að heilla alla í kringum sig enda glaðlyndur og skemmtilegur maður.

Fréttaritari hefur spurst lítillega fyrir um hvort einhver hafi keppt með langafa sínum í ralli.  Spurningunni var dreift á forsvarfólk íþróttarinnar á norðurlöndunum.  Svörin eru öll á sama veg, þetta hefur aldrei átt sér stað.  Ólafur Guðmundsson (fyrrf. forseti LÍA og Formula 1 dómari) benti á að slíkt gæti hafa gerst í fornbílaralli en ólíklegt að slíkt hafi nokkru sinni gerst í sérleiðaralli.  Hér er því jafnvel um einstakan viðburð á heimsvísu að ræða.

Motorsport.is óskar þeim Erni og Bríeti góðs gengis í Rallý Reykjavík og komandi rallkeppnum.

Leave a Reply