Atli Jamil, lukkudísir óskast

Atli Jamil á Thunderbolt átti góðan dag í Hellutorfærunni, reyndar með teimur undantekningum, eins og hann greindi fréttaritara frá í kvöld. Sú fyrri var bilun í stýrisbúnaði í ánni og hin í þeirri sömu á að keppni lokinni.

_MG_1224
Keppnin fór vel af stað. Atli, ásamt Þór Þormari, náði forystu í fyrstu þraut og sat einn á toppnum eftir næstu þraut. Atli jók muninn í þriðju þraut en Þór náði að taka nokkur stig til baka í þeirri fjórðu sem var tímabraut. Sjálfsagt var Atla svolítið létt þegar fjórðu braut var lokið, sú braut kostaði hann e.t.v. sigur í fyrra en þar velti hann bílnum óvænt og má segja klaufalega. Sú hindrun var yfirstigin og Atli hafði forystu, allt snerist í rétta átt og nú var lagt af stað í ána. En eitthvað klikkaði. Þegar Atli var kominn yfir og brautin rétt að byrja rakst hann í árbakkann sem skemmdi stýrisdælu og bíllinn því stýrislaus.

_MG_1926Ekki fór framhjá áhorfendum, sem voru um fimm þúsund, hve bugaður Atli var þar sem hann sat á toppi bílsins þegar hann var dreginn til baka. Sigur var ekki lengur inni í myndinni, nú var bara að reyna að safna stigum.

_MG_2616

En eins og áður sagði var þetta fínn dagur hjá Atla og félögum, með tveimur undantekningum og sú síðari átti sér stað að keppni lokinni þegar Atli þeytti bílnum yfir ána. Eitthvað var óuppgert og hann vildi prófa að aka á vatni eins og svo margir höfðu gert aðeins klukkutíma fyrr. Þegar hann var að nálgast bakkann og glæsilegum akstri á vatninu að ljúka, greindi Atli einhverja breytingu í gangi vélarinnar. Vélin sú er hvorki að fara að vinna neinar keppnir né titla, nema kannski eftir endurbyggingu þar sem flest allar stangir voru bognar og gangsetning var fjarlægur draumur.

_MG_2190

Þannig lauk annars góðum degi sem hefði mátt halda aðeins lengur í lukkudísirnar. Það stóð reyndar til að skipta um vél eftir Hellutorfæruna en það stóð aldrei til að eyðileggja hana. Atli bætti við að einhverjum þolmörkum væri hugsanlega náð. Þótt verið væri að nota þessar stimpilstangir langt yfir þúsund hestöfl væru þær hugsanlega ekki nógu sterkar og uppfærsla því orðin umhugsunarefni.

_MG_2000
Atli minntist líka á að bíllinn hefði verið í mjög góðu standi og það sé mikilvægt.  Tilfinning ökumannsins fyrir bílnum er mikil og einbeitingin fer af akstrinum ef bíllinn kveinkar sér eitthvað.  Þess vegna sé öflugt þjónustulið algert skilyrði til að hægt sé að taka þátt í torfærunni, það má bara ekkert klikka.

Þórður Bragason

Myndir Malín Brand

Leave a Reply