Einvígið á Hellu

_MG_1465
Þór Þormar ók af öryggi og það skilaði honum sigri á Hellu.

Þeir Þór Þormar og Atli Jamil háðu einvígi í keppninni sem stóð þar til annar féll.
Atli virtist vera að hafa betur þegar í ána var komið en þar litu lukkudísirnar undan og ferð hans í ánni varð ekki löng. Þór sýndi hvað í sér býr og ók listavel alla keppnina. Ný og öflugri vél kallaði á smá aðlögun en Þór var fljótur að ná tökum á THOR.

_MG_1226
Atli Jamil leiddi lengi vel en varð að játa sig sigraðan þegar stýrisbúnaður bilaði.

Þeir settust saman á toppinn í fyrstu braut, jafnir og efstir með 240 stig hvor.
Segja má að takturinn í einvíginu hafi verið sleginn í annarri þraut þegar Atli ók án refsinga meðan Þór fékk 60 refsistig. Í þriðju þraut var munurinn á þeim minni, Þór með 20 refsistig en Atli helmingi færri, báðir með 350 stig fyrir lengd líkt og í þrautinni á undan. Þegar hér var komið sögu var Atli með 930 stig en Þór með 860, 70 stig skildu þá að. Fjórða þraut var tímabraut og þar sýndi Þór hvers hann er megnugur, besti tími, rúmum 2 sekúndum betri en næstu menn sem reyndust vera Magnús á Kubbnum og Atli Jamil sem var enn með forystu í keppninni, nú 59 stigum á undan Þór.
Vatnaskil urðu í keppninni þegar Atli fór í ána. Eftir aðeins þriðjung brautarinnar bilaði eitthvað og Atli var greinilega stýrislaus. Án þess að hafa nokkra stjórn á bílnum var hans för sjálfhætt og fékk hann aðeins 50 stig meðan Þór nældi sér í 350 stig sem var besti tími án refsinga.
Eftirleikurinn varð auðveldur fyrir Þór Þormar á THOR þar sem hann, eins og flestir aðrir fór mýrina til enda án refsinga.
Einhvern gæti hætt til að kalla sigur Þórs „fenginn á silfurfati“ en sigurinn er fullkomlega verðskuldaður. Það er hluti leiksins að klára og ná stigum í öllum brautum, það gerði Atli ekki nú, ekki frekar en í fyrra þegar hann kastaði frá sér sigri með afar klaufalegri veltu í tímabrautinni. Sigur Þórs er því hinn glæsilegasti og ekki má gleyma að þessir tveir skildu sig frá öðrum keppendum, að undanskildum Ingólfi á Guttanum sem aldrei var langt undan. Þór endaði 118 stigum á undan næsta manni sem var fyrrnefndur Ingólfur. Eftir því sem fréttaritari kemst næst mun þetta vera besti árangur Ingólfs til þessa. Í þriðja sæti hafnaði Geir Evert á Sleggjuni.

_MG_1481
Ingólfur á Guttanum átti góðan dag á Hellu.

Við munum fjalla frekar um keppni hvers og eins næstu daga.

Þórður Bragason

Myndir Malín Brand

Leave a Reply