Þór Þormar

Þór Þormar á THOR hefur verið að læra á bílinn og gera lítilsháttar breytingar á honum jafnt og þétt.

_MG_1894

Í fljótu bragði mætti ætla að ný og öflugri vél væri stærsta breytingin en svo er ekki að sögn Þórs sem benti á að mesti munurinn lægi í framdekkjunum. Þór hafði prófað mjög gripmikil framdekk sem gerðu það að verkum að bíllinn varð afar kvikur. Minnsta hreyfing á stýrinu ásamt inngjöf varð til þess að kasta framendanum hressilega til. Þessi breyting var ekki til góðs og var aftur horfið til gripminni dekkjanna.  Til að læra þarf vissulega að prófa og Þór Þormar virðist alveg óhræddur við að prófa eitthvað nýtt.

 

_MG_1705

Uppsetning á bílnum krefst bæði kunnáttu og prófana og hefur Þór verið nokkuð duglegur að prófa bílinn í vetur og vor – það skilaði sér á Hellu með sigri.
Vélarskiptin voru ekki svo knýjandi, Þór grínaðist með að það mætti jafnvel kalla það dillur í sér að kaupa nýja vél. Þrátt fyrir að hafa prófað bílinn vandlega, fengið mann í tvígang til að fínstilla vélina, þá voru samt smá hnökrar og hann var ekki frá því að refsingin sem hann fékk í annarri braut á Hellu hafi komið til vegna þeirra. Vélin hikaði á lágum snúningi og það varð einmitt til þess að bíllinn rann lengra til hliðar í hliðarhallanum og Þór ók yfir stiku.  Mistök sem þó komu ekki að sök þegar upp var staðið.
Aðspurður sagði Þór þróunina í bílunum vera talsverða en hún lægi öll í smáatriðum, mörgum smáatriðum. Nú eru flestir bílarnir komnir með sterkari öxla, rafkerfin orðin betri og svo mætti lengi telja. Útkoman er sú að bílarnir mæta í hverja brautina á fætur annarri og slá varla feilpúst.
Fréttaritari spurði Þór hvaða þrír eða fjórir keppendur yrðu efstir í lok árs. Þór taldi sig, Atla Jamil, Magnús á Kubbnum (ef hann mætti í allar keppnir)  og Geir Evert verma efstu sætin. Þess má geta að Magnús hyggst ekki mæta á Egilsstaði en Þór Þormar ætlar þangað og sigur er markmiðið.

Þórður Bragason

Myndir Malín Brand

Leave a Reply