Magnús Sigurðsson er lentur

Magnús Sigurðsson á Kubbnum átti enn eitt glæsilegt stökkið á Hellu. Fréttaritari spurði Magnús hvað hann hafi hugsað meðan bíllinn var í loftinu. Magnús sagðist hafa vonað það eitt að bíllinn færi ekki fram fyrir sig, hvergi banginn, alls ekki, allt var í fína lagi.

_MG_2112

Magnús nefndi að það væri ástæða fyrir þessu mikla flugi, skýringin er svolítið öfugsnúin og mætti skilja sem aflleysi. Nítróið virkaði ekki, vélin hitnaði og sérsmíðuð vélartölvan er þannig forrituð að hún fer í „Safe mode“ ef vélin t.d. ofhitnar. Þannig truflanir voru að hrjá Magnús og nokkuð ljóst að það kostaði hann einhver stig en Magnús vildi ekki gera mikið úr því, þetta væri bara svona og engin ástæða til neins annars en að laga þetta og gera betur næst.

_MG_2121
Magnús gerði lítilsháttar breytingar á Kubbnum í vetur. Ný sjálfskipting ásamt converter sem leyfir vélinni að snúast meira áður en aflinu er skilað til hjólanna. Það hjálpar til þegar verið er að nota litla vél með stóra túrbínu. Þess má geta að Magnús notast við fjögurra strokka vél úr Hondu en allir aðrir keppendur notast við átta strokka vélar. Aftur að háum stökkum, Magnús sagði að það væri ástæða fyrir stökkinu í annarri þraut. Þegar ekkert nítró er til staðar má hann ekki missa túrbóþrýstinginn niður, hann má því ekki slá af, verður að keyra hraðar og ákveðnar. Þess vegna hafi hann komið hratt í barðið og Magnús vissi að hann myndi stökkva hátt, svo var bara að vona að hann lenti uppi en færi ekki afturábak niður, það væri hugsanlega verra.

_MG_2122
Ég sagði Magnúsi að margir hefðu nefnt hann sem einn líklegra meistara í ár, ef hann mætti í allar keppnir. Magnús sagðist nú vera fjölskyldumaður fyrst og fremst og í ár myndi hann ekki mæta í allar keppnir þar sem fjölskyldan gengi fyrir. Við bíðum og sjáum, kannski verða einhverjar breytingar og við fáum að sjá þennan hæverska fjölskyldumann fljúga upp brekkurnar á Egilsstöðum. Það kemur í ljós.
Magnús kom einnig inn á það hvað þarf til að ná árangri í keppni: „Þjónustuliðið er algert lykilatriði. Ef þjónustuliðið er ekki fyrsta flokks verður árangurinn það heldur ekki.“
Magnús var nokkuð viss um að Þór Þormar og Atli Jamil yrðu í hópi efstu manna í lok árs og að hann ætlaði sér að vera þar líka þrátt fyrir að sleppa einni keppni. Hann bætti við að bæði Geir Evert og Gestur á Draumnum væru einnig líklegir.  Að lokum sagði Magnús að sá sem ynni tvær keppnir yrði meistari.  Nú bíðum við bara og sjáum.

Þórður Bragason

Myndir Malín Brand

Ein athugasemd Bæta þinni við

Leave a Reply