Ívar á Kölska var ekki alveg sáttur við sjálfan sig á Hellu. Það gekk bara ekkert nógu vel framan af. Reglubreytingar kölluðu á breytingar á bílnum og vissulega þarf að læra á bílinn upp á nýtt. En það var ekki skýringin. Að sögn Ívars var hann bara „ekki með hausinn í lagi“. Fáránleg mistök litu dagsins ljós en samt náði hann forystunni af og til. Ívar kom til í fimmtu þraut og náði að landa öðru sæti í keppninni. „Stefnum ótrauðir á titil“ sagði hann og var greinilega búinn að ná vopnum sínum.
Bíllinn tók stakkaskiptum í vetur. Ný vél var sett í hann, vél úr Buick Electra 1973 sem var forsetabíll lýðveldisins Íslands í forsetatíð Kristjáns Eldjárns, bíll með fyrsta fasta númerið, AA 001. Stýrisgangnum í Kölska var líka breytt og svoleiðis þarf ökumaðurinn að læra á allt þetta. 600 til 650 hestöfl auk nítrós ættu að skila Kölska vel upp brekkurnar og eitt kom að auki, bein innspýting. Innspýtingin var eitthvað sem Ívar var ekki hrifinn af framan af en þjónustuliðið sagði að svona skyldi þetta vera og þannig er það nú.
Það verður gaman að fylgjast með Ívari í sumar, sjáum hvort hann standi við stóru orðin og landi titli.
Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand
Forsíðumynd: https://1958buicklimitedforsalehxq.wordpress.com/