Ingó á Guttanum að gera gott mót

Ingólfur Guðvarðarson á Guttinn Reborn gerði gott mót á Hellu þar sem hann náði öðru sæti. Árangurinn milli brauta var svolítið breytilegur, alveg frá sjöundi besti upp í besti árangur í þraut. Ef Ingólfi tekst að aka jafnar, gera færri mistök, er alveg ljóst að hér er kominn kandídat til að keppa um titil.

Ingólfur Guðvarðarson
Ingólfur Guðvarðarson
Ingólfur Guðvarðarson

Annað sætið er besti árangur Ingólfs í sérútbúna flokknum. Oft hafa smábilanir skemmt fyrir, haft jafnvel verðlaunasæti af honum en Ingólfur breytti áherslum lítillega fyrir þetta keppnistímabil. Áherslan á útlit bílsins vék lítillega og gangverkið fékk meiri tíma. Ingólfur gantaðist reyndar við fréttaritara að það kæmi til vegna þess að einn styrktaraðilinn hafði haft að orði að bíllinn liti alltaf út eins og nýr, spurði hvort bíllinn hefði aldrei verið notaður. Þó það hafi verið sagt í gríni hreyfði það eitthvað við Ingólfi sem hafði þá skipt um framhásingu til að fá betri beygjur. Í framhaldinu fékk bíllinn betri skveringu en áður og kannski átti það sinn þátt í velgengni Ingólfs á Hellu. Reyndar kvartaði Ingólfur undan framdempurunum, eitthvað sem hann og þjónustuliðið þarf að líta á fyrir næstu keppni, breytingar sem nýja hásingin kallar á.
Ingólfur hefur alltaf verið yndi áhorfenda, litskrúðugur keppandi sem lætur vaða ef einhver von er á árangri, bíllinn er sterkur og hefur staðið slíkar raunir af sér með ágætum.
Það hlítur að vera mikil hvatning fyrir Ingólf að vera í öðru sæti í Íslandsmótinu, þess vegna tilhlökkunarefni að sjá hann í næstu keppni.
Fréttaritari spurði Ingólf hvaða keppendum hann reiknaði með að verma efstu sæti mótsins í lok árs. Ingólfur var tregur til svars og sagðist ekki ætla að fjalla um sjálfan sig en nefndi að Þór Þormar, Atli Jamil og Geir Evert væru líklegir. Nú er bara að bíða og sjá hvort nafn Ingólfs vanti ekki í þessa annars hógværu yfirlýsingu.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Þórður Bragason

Leave a Reply