Hamingjurall á Hólmavík

17 áhafnir voru skráðar til keppni en einungis 15 hófu keppni.  Fréttaritarar motorsport.is, þau Þórður og Malín á Cherokee afboðuðu sig þegar bilun í gírkassa kom upp skömmu fyrir keppni. Rúnar og Hörður á Escort voru komnir á staðinn þegar bilun í drifrás kom upp og án viðgerðaraðstöðu voru þeim allar bjargir bannaðar.

Staðan í Íslandsmótinu fyrir Hamingjurallið á Hólmavík var þannig að Ragnar Bjarni og Bragi voru í forystu og fáir líklegir í toppbaráttunni voru nálægt þeim eftir mikil afföll í fyrstu keppni sumarsins.
Þeir Ragnar Bjarni og Bragi héldu uppteknum hætti og náðu besta tíma á fyrstu leið Hamingjurallsins. Sú hamingja varði stutt hjá þeim félögum þegar öxull í gírkassa brotnaði á ferjuleiðinni að næstu sérleið og þar lauk þeirra keppni. Baldur og Hjalti voru 8 sekúndum eftir Ragnari Bjarna og Braga á fyrstu leið en þeirra keppni lauk í upphafi annarrar sérleiðar þegar spindilkúla gaf sig, önnur keppnin í röð sem endaði ótæmabært hjá þeim félögum. Henning og Árni náðu þriðja besta tíma á fyrstu leið en voru ekki alveg nógu beittir á þeirri næstu og misstu Gunnar Karl og Heimi framfyrir sig ásamt þeim Valdimar og Sigurjóni sem tóku forystu í keppninni þar með.
Þriðja leið var mjög hröð leið líkt og sú fyrsta og þar náðu Henning og Árni forystuni aftur en 5 sekúndum á eftir komu þeir Valdimar og Sigurjón og einni sekúndu þar á eftir komu þeir Gunnar Karl og Heimir.

Magnús og Arnar Freyr náðu besta tímanum á annarri leið og voru þá 19 sekúndum frá fyrsta sæti þegar þrjár leiðir voru búnar. Þeir Sigurður Bragi og Ísak náðu best þriðja besta tíma á leið en náðu sér aldrei almennilega á strik og á fjórðu leið, Hestakleif, gafst vélin upp, drap á sér og fór ekki í gang fyrr en löngu síðar þegar þeir voru fallnir úr keppni. Mikil vonbrigði en þeir fylltu stóran hóp keppenda sem féll úr keppni að þessu sinni. Þeir Valdimar og Sigurjón bættust í þennan hóp þegar trissuhjól á vél brotnaði og þar endaði keppni þeirra sem virtist ætla að vera við þá Henning og Árna um fyrsta sætið eða Gunnar Karl og Heimi um annað sætið. Öruggir í þriðja sæti voru þeir Magnús og Arnar Freyr en þeir virtust ekki hafa nægan hraða til að vinna sig upp en minnstu mistök annarra væru þeim kærkomin og allt gat gerst því keppnin var jöfn og hörð.

Eftir hádegishlé var leiðin um Þorskafjarðarheiði ekin aftur og þar gerðist fátt markvert. Tvær síðustu leiðirnar í keppninni voru um Kaldrananes, leið frá Drangsnesi inn í Bjarnafjörð, hröð og kröpp á köflum. Síðasta leiðin var svokölluð „Power stage“, leið sem gefur aukin stig í Íslandsmótinu. Fyrir besta tíma fást 3 stig, 2 fyrir annan besta tíma og 1 fyrir þriðja besta tíma. Það er því til mikils að vinna fyrir keppendur að nota fyrri ferðina til að „æfa sig“ og láta gamminn geysa á þeirri síðari. Eitthvað mistókst „æfingin“ hjá Vikari og Gunnari en þeir veltu bíl sínum um miðbbik leiðarinnar og ólíklegt að þeim bíl verði ekið aftur. Sömu sögu er að segja af Almari og Sverri en skemmdir voru þó minni en för þeirra lauk með veltu sem er leiðinlegt þar sem allt útlit var fyrir að þeir myndu leiða Íslandsmótið þar sem þeir náðu öðru sæti í fyrstu keppni ársins.

Mestu vonbrigði keppninnar voru samt við endamark síðustu leiðar þegar þeir Magnús og Arnar veltu bíl sínum. Þegar innan við hálfur kílómetri var eftir af rallinu misstu þeir stjórn á bílnum og komu of hratt í beygju. Magnús beygði útaf til að afstýra óhappi en þar beið misfella á sléttunni – misfella sem varð að risastökkpalli og þeir köstuðust hátt í loft upp, lentu nokkrum sinnum á öllu öðru en hjólunum. Þó virðist hægra afturbretti bílsins vera nokkuð heillegt en annað ekki. Hristir en ekki hrærðir sögðust þessir ungu menn ætla að laga bílinn og mæta í næstu keppni en eins og myndir bera með sér eiga þeir mikla vinnu fyrir höndum.

Við munum fjalla um baráttuna í AB varahlutaflokknum í annarri grein. Þar var hörð keppni og allt að gerast.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply