Sekúnduslagur og mikil afföll

Óhætt er að segja að Hamingjurallið hafi staðið undir nafni hjá mörgum keppendum en á sama tíma voru aðrir keppendur frekar óhamingjusamir með bíla sína kútoltna úti í móa.

Staðan í Íslandsmótinu var þannig að Almar og Sverrir voru efstir og Skafti og Svavar í öðru sæti, þar á eftir komu Vikar og Gunnar.

Skafti hafði skipt um aðstoðarökumann; Hanna Rún kom í stað Svavars.  Þau settu besta tíma á fyrstu leið.  Aðeins ein sekúnda skildi næstu áhafnir að, það voru Óskar og Halldóra annars vegar og hins vegar þeir Jósef og Hjalti.  Fimm sekúndum þar á eftir komu Vikar og Gunnar og sigurvegarar síðustu keppni, þeir Almar og Sverrir voru fjórtán sekúndum eftir fyrsta sætinu og áttu ærlegt verk fyrir höndum.

Óskar og Halldóra á síðustu sérleið, sigur handan hornsins eða hvað?

 

Eitthvað förlaðist þeim Óskari og Halldóru flugið á annarri leið en þau náðu aðeins 6. besta tíma en héldu öðru sætinu og voru nú 17 sekúndum frá fyrsta sæti en Vikar og Gunnar voru aðeins sekúndu á eftir þeim. Almar og Sverrir unnu sig upp um eitt sæti með næstbesta tíma.  Garðar og Haukur blönduðu sér í baráttuna, náðu þriðja besta tíma á Hestakleifinni.  Framundan voru fleiri hraðar leiðir svipaðar Þorskafjarðarheiði sem ekin var fyrst.

Þeir Almar og Sverrir náðu besta tíma á þriðju leið og voru þá í 4. sæti, 23 sekúndum frá fyrsta sæti. Skafti og Hanna Rún náðu öðrum besta tíma og sátu sem fastast í fyrsta sæti og virtust vera í góðum málum.  Óskar og Halldóra voru í öðru sæti og þeir Vikar og Gunnar voru aðeins fimm sekúndum frá þeim þegar keppnin var tæplega hálfnuð.  Allt var í járnum og ljóst að mikið yrði lagt undir, einkum ef þeim Almari og Sverri tækist ekki að ná á verðlaunapall – þá væri Íslandsmótið galopið.

Jósef og Hjalti nálægt endamarki síðustu leiðar.

Á fjórðu leið, Hestakleif til baka, snerist allt við.  Skafti og Hanna náðu 6. besta tíma ásamt þeim Óskari og Halldóru.  Besta tíma náðu Jósef og Hjalti, Vikar og Gunnar voru 2 sekúndum eftir þeim ásamt Almari og Sverri.  Staðan í flokknum breyttist hins vegar ekki þar sem einungis fimm sekúndur skildu fyrstu 6 áhafnirnar að.  Þetta ber þess vott hve jöfn keppnin er í AB varahlutaflokknum.

Að loknu hádegishléi var leiðin um Þorskafjarðarheiði ekin fyrst, svo héldu keppendur á Kaldrananes sem ekið var í tvígang.  Ljóst var að þegar keppnin væri svo jöfn mætti búast við einhverjum mistökum.  Sú varð raunin.

Vikar og Gunnar veltu bíl sínum illa.

Óskar og Halldóra náðu að saxa aðeins á forskot þeirra Skafta og Hönnu, forskot sem var nú komið niður í 11 sekúndur.  Almar og Sverrir tóku þriðja sætið af Vikar og Gunnari. Munurinn var samt lítill, litlar 4 sekúndur skildu að og tvær leiðir eftir.  Næst lá leiðin á Kaldrananes – leið sem átti eftir að taka sinn toll af rallýbílum.  Fyrstu fórnarlömbin voru Vikar og Gunnar, Subaru bíll þeirra mun sjálfsagt ekki aka að nýju enda handónýtur, að sögn Vikars.

_MG_5634
Almar og Sverrir á fullri ferð, hamingjan senn á enda

Aðeins nokkrum kílómetrum frá voru Almar og Sverrir staddir utanvegar eftir létta veltu og þar lauk Hamingjurallinu þeirra.  Annað var að gerast á sama tíma, Óskar og Halldóra voru að saxa á forskot Skafta og Hönnu, tóku tíu sekúndur af þeim á fyrri ferðinni um Kaldrananes, þá skildi einungis ein lítil sekúnda þessar áhafnir að. Minni verður munurinn ekki og að sama skapi verður spennan ekki meiri.

Með taugarnar þandar tóku þessar tvær áhafnir inn á síðustu sérleið, vitandi að staðan væri hnífjöfn. Þeir Jósef og Hjalti skutust upp í þriðja sætið við brottfall veltufélaganna. Garðar og Hörður í það fjórða og Andri og Héðinn í fimmta sæti.

Aftur að slagnum um fyrsta sætið. Að aka rallýbíl er íþrótt þar sem þú veist ekkert hvernig þér gengur, þú bara ekur og gerir þitt besta, reynslan kennir þér kannski hvort þú standir þig eða ekki.  En þegar munurinn er aðeins sekúnda eftir meira en 100 kílómetra á sérleiðum er lítil von til að þessar áhafnir geti gert sér grein fyrir hvort aksturinn dugði til sigurs eða ekki. Svo fór að Óskar og Halldóra höfðu betur, unnu með 6 sekúndum og voru því með 5 sekúndna forystu að keppni lokinni. Glæsilegur árangur hjá þeim en að sama skapi súrt fyrir Skafta og Hönnu að horfa eftir fyrsta sætinu eftir að hafa leitt keppnina frá fyrstu sérleið.

Keppnin í AB varahlutaflokknum var með harðasta móti í þessari keppni og þykir flokkurinn vera mjög góður „stökkpallur“ áður en ökumenn fjárfesta í dýrari bílum.  Flestar áhafnirnar aka á Subaru Impreza, ein áhöfn er á Subaru Legacy og loks ein áhöfn á Toyota Rav-4, þeir kalla liðið sitt því skemmtilega nafni „Raviðnaðarsambandið“.

motorsport.is óskar sigurvegurum til hamingju með sigurinn og óskar þess jafnframt að þeir sem féllu úr keppni nái að laga bíla sína fyrir næstu keppni sem fer fram í Skagafirði um næstu mánaðarmót.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply