Einum mistökum frá sigri

Þeir voru nokkrir keppendurnir í Akranestorfærunni sem hefðu getað unnið í dag ef þeir hefðu bara sleppt einum mistökum.

 

Fyrst má nefna Atla Jamil Ásgeirsson.

Atli endaði í öðru sæti með jafnmörg stig og Ingólfur sem vann. Atli átti góðan dag en ekki mistakalausann. Í þriðju þraut bakkar Atli og reynir aftur við endamark.  Niðurstaðan var verri en ef hann hefði bara stoppað og sleppt því að bakka og reyna aftur, þar fór sigurinn svo dæmi sé tekið.

Kristján F. Sæmundsson.

Kristján F. Sæmundsson (mynd Jakob Cecil)

Kristján endaði 30 stigum frá fyrsta sæti í dag og mistökin í fyrstu þraut kostuðu hann klárlega sigur. Þar var hann dæmdur út úr braut, dómur sem sumir efast um en skjáskot virðist sýna að sá dómur sé réttur. Á myndinni sést hvar rauða línan er, dreginn er rauður hringur utan um þann hluta hennar sem sást þá. Myndbandið sem Jakob Cecil birtir á youtube.com sýnir að Kristján missir annað afturdekkið niður fyrir þá línu. Myndbandið í heild sinni má sjá hér að neðan en skjáskotið er tekið af myndbandi hans.

Þór Þormar að kasta frá sér sigri

Þór Þormar kastaði frá sér sigri þegar hann gleymdi að ýta á bensingjöfina í fimmtu þraut. Meðan helstu keppinautar hans fóru upp sat hann eftir með sárt ennið og glötuð stig, tapaði 100 stigum og endaði 40 stigum frá fyrsta sæti.

Haukur Viðar settist á kviðinn í fyrstu þraut

Haukur Viðar Einarsson endaði í fjórða sæti, 130 stigum frá fyrsta sæti. Haukur settist klaufalega á kviðinn í fyrstu þraut, kolfastur og tapaði 180 stigum á helstu keppinauta.  Þau mistök kostuðu hann klárlega sigur.

Það má lítið útaf bregða þegar keppnin er orðin jafn hörð og dæmin sýna. Íslensk torfæra er meira spennandi fyrir vikið og ljóst að margir eru líklegir til sigurs á morgun þegar aftur verður keppt í sömu gryfjum við rætur Akrafjalls.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply