Ingólfur vann á Akranesi

Ingólfur Guðvarðarson

Eftir harða og jafna keppni stóð Ingólfur Guðvarðarson uppi sem sigurvegari. Ingólfur leiddi keppnina framan af en varð að láta forystuna af hendi á tímabili en með frábærum akstri í síðustu þraut tókst honum að endurheimta fyrsta sætið og þar með sigurinn.

Ingólfur gerði mistök í 5. þraut, hann komst upp og rúmlega það, flaug upp og endaði á hvolfi og fékk aðeins 250 stig meðan helstu keppinautarnir, Atli Jamil þar á meðal, fengu allt að 350 stig.

Í síðustu þraut sýndi Ingólfur á sér aðra hlið en þá sem við höfum oftar séð, nefnilega grimma ökumanninn með bensíngjöfina alltaf í botni. 5. þrautin einkenndist af yfirvegun, einhvern veginn silaðist bíllinn í rólegheitum fram hjá hverri hindruninni af annarri án þess að snerta þær, refsilaust komst hann upp og jafnaði Atla Jamil að stigum en reglur eru skýrar þegar kemur að því að skilja milli keppenda sem eru jafnir að stigum og árangur fyrr í keppninni skilaði Ingólfi fyrsta sætinu.

Þetta er fyrsti sigur Ingólfs en hann hefur keppt í nokkur ár og hefur sýnt að hann er mjög góður en hefur stundum vantað mýktina, þessar fínu hreyfingar. Bæði mýktin og fínu hreyfingarnar komu í ljós í síðustu þrautinni í dag og ljóst að Ingólfur er að stimpla sig inn sem hugsanlegur meistari í nánustu framtíð.

Atli Jamil Ásgeirsson hafnaði í öðru sæti með jafnmörg stig og Ingólfur. Atli leiðir Íslandsmótið og gæti tryggt sér titilinn í seinni keppninni sem haldin verður í sömu gryfjum við rætur Akrafjalls.

 

 

Í þriðja sæti varð Kristján F. Sæmundsson sem sýndi flottan akstur og hefði sigrað ef hann hefði ekki verið dæmdur úr fyrstu þraut þegar hann ók út fyrir marklínu sem markar útlínu brautar.

 

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply