Akranestorfæran, dagur 2

Fimmta umferðin í Íslandsmótinu í torfæru fór fram við rætur Akrafjalls, rétt eins og fjórða umferðin daginn áður.  Ljóst var að Atli Jamil Ásgeirsson gat tryggt sér titilinn en til þess þurfti ansi margt að gerast. Eitt sem hefði þurft að gerast var að Atli hefði þurft að vinna, einnig hefði Þór Þormar Pálsson þurft að enda aftarlega og sama mátti segja um fleiri keppendur.

Allt fór þó á annan veg og nú er ljóst að úrslit Íslandsmótsins munu ráðast í síðustu umferðinni sem fer fram á Akureyri þann 18. Ágúst.

Haukur Viðar Einarsson tók forustu í annarri þraut og lét þá forustu aldrei af hendi, ók eins og herforingi í hefndarhug, enda átti hann harma að hefna frá gærdeginum þar sem hann kastaði sigri frá sér þegar hann festi bílinn snemma í fyrstu þraut. Haukur lagði grunn að sigrinum í annarri þraut þar sem hann fór einn upp, stórkostlegur árangur í mjög erfiðri braut. En eitt er að ná forustu og annað að halda henni og Haukur sýndi það í dag að hann er með einbeitinguna í lagi, hélt forustunni og vann verðskuldaðan sigur.

Geir Evert Grímsson á Sleggjuni átti góðan dag og hafnaði í öðru sæti.  Stígandi lukka einkenndi gengi Geirs, hann var þriðji eftir fyrstu þraut en vermdi svo fjórða sætið þar til í fimmtu þraut þegar hann komst framfyrir Þór Þormar á THOR.  Í sjöttu þraut gerði hann svo betur og náði að skjóta Atla Jamil Ásgeirssyni á Thunderbolt afturfyrir sig líka og lau keppni eins og áður sagði í öðru sæti.  verskuldaður árangur eftir flottan akstur.

Þór Þormar á THOR lék sama leik og Geir Evert í síðustu þrautinni, skaust fram fyrir Atla Jamil á Thunderbolt.  Þór náði öðru sæti í fyrstu þraut en gekk afar illa í annarri þraut og féll niður í 6. sæti. Svo kom góður kafli og eftir 4. braut var Þór kominn í annað sæti. En Þór langar eflaust að gleyma 5. braut, brautinni sem kostaði hann sigurinn og nú var hann kominn niður í 4. sæti, mikil vonbrigði.  Eins og áður sagði náði hann að komast fram fyrir Atla Jamil í síðustu þrautinni og heldur voninni um titil vakandi, von sem kannski verður að veruleika í síðustu umferðinni á Akureyri.

Atli Jamil Ásgeirsson á Thunderbolt gerði sér e.t.v. vonir um um titil í dag, þær vonir voru ekkert út úr kortinu en eins og áður sagði þurfti margt að gerast og hann hefði líka þurft að vinna.  Skemmst frá að segja þá vann hann ekki en getur horft björtum augum til síðustu umferðarinnar á Akureyri.  Atli var ekkert sannfærandi í dag, var fjórði eftir fyrstu þraut, hélt svo þriðja sætinu lengi vel og náði öðru sæti loks í fimmtu þraut en tapaði því í síðustu þrautinni og endaði eins og áður segir í fjórða sæti.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply