Titlar og vonbrigði

Síðasta umferð Íslandsmótsins í torfæru fór fram á Akureyri síðustu helgi. Fyrirfram var búist við harðri keppni milli Atla Jamils og Þórs Þormars, sú varð þó ekki raunin því Þór stakk aðra keppendur af eftir fyrstu þraut og var búinn að vinna þessa keppni áður en síðasta þraut var keyrð. Atla Jamil dugði annað sætið til að hampa titli og hélt því sæti lengst af, alveg fram í síðustu þraut en þar brast eitthvað. Þar ræsti Atli fyrstur og fyrsta barðið var honum fjandsamlegt, bíllinn kastaðist til og ljóst að nú var annað sætið í uppnámi og titillinn í hættu.

Á sama hátt og Þór Þormar þurfti að treysta á aðra keppendur (koma Atla neðar en annað sæti), þurfti Atli nú að treysta á þá sömu keppendur að þeir stæðu sig ekkert of vel. Það er erfitt enda höfum við séð fleiri sigurvegara í keppnum í ár en venjan er.

Í fimmtu þraut var ein stika sett á rangan stað þegar Ingólfur á Guttunum ók brautina.  Þetta olli því að Ingólfur var látinn aka brautina aftur og eftir það var staðan þannig að hann og Atli voru jafnir. Möguleikar Ingólfs jukust verulega þegar Atla fataðist flugið í sjöttu og síðustu brautinni.

Bæði áhorfendur og keppendur biðu með öndina í hálsinum eftir að Ingólfur æki síðustu brautina, vitandi að hann hafði í hendi sér hver yrði Íslandsmeistari. Áður en Ingólfur fór kom Geir Evert Grímsson og stal senunni, flaug upp síðustu braut eins og ekkert væri sjálfsagðara. Fögnuður stuðningsmanna Þórs Þormars var gríðarlegur enda ljóst að þetta færði Þór titilinn á silfurfati. Ingólfur kom svo og hirti annað sætið af Geir og eftir sat Atli með sárt ennið eftir frábæra frammistöðu í sumar.

Magnús Sigurðsson á Kubbnum sagði eftir fyrstu keppni sumarsins að Íslandsmeistarinn í ár myndi vinna tvær keppnir. Það voru orð að sönnu.  Spennan hefur verið mikil í sumar, margir sigurvegarar og nokkrir líklegir til að hampa titli.

Svipaða sögu var að segja af götubílaflokknum, Steingrímur Bjarnason leiddi Íslandsmótið en Ívar Guðmundsson gat náð honum með sigri þó Steingrímur yrði í öðru sæti.

Önnur braut er sú braut sem Steingrímur vill eflaust gleyma sem fyrst, þar fór hann ekki langt og fékk að auki helling af refsingu, fékk aðeins 160 stig meðan Ívar og Orri fengu 330 stig. Stigin 170 sem töpuðust þar kostuðu Steingrím titilinn. Fyrir síðustu þraut skildi aðeins 48 stig þessa tvo að og ljóst að allt yrði lagt undir í síðustu þraut. Þar hafði Ívar betur, jók forskotið um 40 stig og landaði glæsilegum sigri.

Ívar Guðmundsson átti ekki góðu gengi að fagna í Hellutorfærunni en með eljusemi og góðum árangri á Akureyri náði hann að landa Íslandsmeistaratitli og er vel að honum kominn.

Eðvald Orri Guðmundsson fylgdi Steingrími hvert fótmál alla keppnina en var allan tímann í þriðja sæti nema eftir aðra þraut þar sem hann skaust upp í annað sætið.

Haukur „Þeytingur“ Birgisson vermdi fjórða sætið sem hefur verið hans staður í sumar.  Bíllinn „Þeytingur“ er mjög góður bíll en e.t.v. vantar Hauk smá grimmd, blóðbragð í munninn.  Hann getur þetta, sýndi það á Egilsstöðum þar sem hann landaði titli í NEZ mótinu.

Að tveimur vikum liðnum fara flestir keppendur með bíla sína til Ameríku þar sem árleg torfærukeppni fer fram 4. – 7. október og þar má búast við mikilli torfæruveislu eins og sést hefur undanfarin ár.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply