
Skafti Skúlason var aðeins hálfu stigi eftir Óskari Kristófer Leifssyni fyrir síðustu keppnina. Aðrir áttu enga möguleika á titli og því ljóst hverjum þurfti að fylgjast með.
Halldóra Rut Jóhannsdóttir, systir Óskars Kristófers, hafði þegar tryggt sér titil aðstoðarökumanna þar sem Hanna Rún Ragnarsdóttir var ekki með. Hanna Rún keppti með Skafta fyrr í sumar en tók hlé þegar hún tók að sér að stjórna Rallý Reykjavík fyrr í sumar.

Þeir Skafti og Gunnar náðu aldrei að berjast um sigur í þessari keppni. Skafti náði sér aldrei á strik og Óskar passaði sig og ók ekki hraðar en hann þurfti. Sigur í þessari keppni var aukaatriði, titillinn var markmiðið.

Á annarri leið varð slys þegar Almar Þórólfsson og Sigurbjörn Grétarsson veltu bíl sínum harkalega. Þeir voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar og voru útskrifaðir þaðan fljótlega en litlu mátti muna. Veltibúr bílsins var alvarlega skemmt og segja má með sanni að þeir hafi verið heppnir að ekki fór verr. Keppendur sem á eftir komu stoppuðu á slysstað eins og tíðkast og því þurfti dónefnd að áætla tíma samkvæmt reglum.

Ívar Smárason og Ólafur Bjarnason áttu góðan dag lengst af en urðu af sigri þegar gírkassinn gaf sig. Þeir Jósef Guðbjörnsson og Hjalti Halldórsson áttu raunverulegan möguleika á sigri en gefinn tími dómnefndar á annarri leið var þeim óhagstæður og þeir enduðu í öðru sæti, 19 sekúndum á eftir Óskari Kristófer og Halldóru Rut.

Framhald keppninnar var barátta þessara fjögurra áhafna. Þegar þeir Ívar og Ólafur heltust úr lestinni hélt slagurinn áfram og einungis 21 sekúnda skildu hina þrjár að í lok dags. Óskar Kristófer og Halldóra Rut unnu sigur, Jósef og Hjalti höfnuðu í öðru sæti og Skafti og Gunnar í því þriðja aðeins 3 sekúndum þar á eftir.
Óhætt er að segja að sumarið hafi verið tíðindasamt í AB varahlutaflokknum. Veltur og afföll hafa verið með mesta móti og baráttan harðari en árin á undan.

motorsport.is óskar þeim Óskari Kristófer og Halldóru Rut til hamingju með Íslandsmeistatitilinn.
Myndir: Malín Brand