Kemi rallið – stál í stál

_MG_0873
Ragnar Bjarni og Bragi Snær

Óhætt er að segja að allt hafi verið í járnum fyrir síðustu umferð Íslandsmótsins í ralli sem fram fór um helgina. Fréttaritari minnist þess ekki að jafn margir hafi átt möguleika á titli, því síður að staðan væri svo jöfn að ljóst væri að úrslit myndu ekki ráðast fyrr en á síðustu sérleiðinni, svokallaðri ofurleið sem gefur auka stig.

Ofurleið er oftast síðasta sérleið hverrar keppni og fær sigurvegari þeirrar leiðar 3 stig, annað sæti fær 2 og þriðja sætið hirðir síðasta stigið. Þetta gildir bæði yfir heildina sem og í hverjum flokki fyrir sig.

Ragnar Bjarni Gröndal leiddi mótið með 42,5 stig, Skafti Skúlason var í öðru sæti með 40 stig en þótti ekki líklegur til að landa meistaratitli þar sem hann ekur mun aflminni bíl. Gunnar Karl Jóhannesson og Baldur Arnar Hlöðversson komu þar á eftir og ljóst var að þeir, ásamt Ragnari Bjarna myndu berjast um titilinn.

Stig aðstoðarökumanna litu öðruvísi út; Heimir Snær Jónsson leiddi mótið en hann ók með Gunnari Karli fyrr í sumar en nú ekur hann með Baldri Hlöðverssyni. Bragi Snær Ragnarsson var í öðru sæti og þurfti að vinna og fá Heimi í þriðja sætið til að hampa titli. Bragi keppir með Ragnari Bjarna Gröndal.

Keppnin fór fram á Kaldadal sem er hröð leið. Aðstæður á keppnisdag voru þannig að stytta þurfti leiðina vegna ófærðar ofar í dalnum.

_MG_0878
Gunnar Karl og Ísak

Gunnar Karl (með Ísak Guðjónsson sér við hlið) og Baldur náðu sama tíma, besta tíma á fyrstu leið, 7:04 meðan Ragnar Bjarni var 4 sekúndum á eftir. Baldur náði besta tíma á annarri leið og var þá kominn með 11 sekúndna forskot á Gunnar Karl og 7 sekúndur á Ragnar Bjarna. Keppnin snerist upp í einvígi milli þeirra Ragnars Bjarna og Baldurs meðan Gunnar Karl tapaði þeim frá sér jafnt og þétt. Munurinn milli þeirra tveggja varð mestur 10 sekúndur Baldri í vil og tvær leiðir eftir. Þeir voru jafnir upp á sekúndu á fimmtu leið og þá var aðeins ofurleiðin eftir. Færi svo að Baldur ynni yrði hann að vinna ofurleiðina ef Ragnar lenti í öðru sæti í keppninni og næði öðrum besta tíma á ofurleiðinni. Jafnara verður það ekki.

Baráttan hjá þessum tveimur var svo hörð að þeir hefðu hæglega getað keyrt sig út úr keppninni. Bæði Gunnar Karl og Henning Ólafsson áttu möguleika á titli, en þeirra von var einna helst sú að aðrir féllu úr leik miðað við hvernig staðan var fyrir síðustu sérleiðina.

_MG_1241
Baldur Hlöðversson og Heimir Snær Jónsson með sprungið á síðustu leið.

Baldur sprengdi vinstra afturdekk á síðustu leið og tapaði ekki bara ofurleiðinni heldur féll hann niður um tvö sæti. Baldri var ljóst um leið og hann sprengdi að hans möguleikar á titli voru þeir að Ragnar sprengdi líka eða eitthvað þaðan af verra. Sú varð ekki raunin, Ragnar Bjarni og Bragi Snær óku til sigurs og hrepptu sinn titilinn hvor. Gunnar og Ísak hrifsuðu til sín annað sætið en þó ekki fyrr en Heimir, aðstoðarökumaður Baldurs gerði athugasemd við birt úrslit þar sem þeir fengu rangan tíma og voru ranglega skráðir í annað sætið. Höfðinglega gert svo ekki sé meira sagt.

_MG_1200motorsport.is óskar Ragnari Bjarna of Braga Snæ til hamingju með Íslandsmeistatitilinn.

Myndir: Malín Brand
Texti: Þórður Bragason

Leave a Reply