Upphitun fyrir sænska rallið

 

Önnur umferð heimsmeistaramótsins í ralli fer fram um helgina í Svíþjóð. Þó rallið sé kallað Rally Sweden fer þó stór kafli þess fram í Noregi. Bækistöðvar keppninar eru í bænum Torsby nálægt landamærum Noregs.

Sebastain Ogier og Julian Ingrassia á Citroën unnu fyrstu umferðina, heimakeppni sína í Monte Carlo. Í öðru sæti urðu erkifjendur þeirra, Thierry Neuville og Nicalaus Gilsoul á Hyundai og í því þriðja þeir Ott Tanak og Martin Jarveoja á Toyota.

Þessar þrjár áhafnir börðust eins og blóðugir hundar allt síðasta keppnistímabil og höfðu þeir allir möguleika á titli þegar komið var í síðustu umferðina.

 

Rásröðin skiptir öllu máli í snjónum

Þó gæti farið svo að engin þessara áhafna verði í toppslagnum um helgina. Rásröðin hefur mikið að segja í snjónum í Svíþjóð og munu þessar áhafnir ræsa fyrstar inn á sérleiðirnar. Venjulega hægir það á ökumönnum þar sem fyrstu bílar hreinsa lausa snjóinn af vegunum.

Sænska rallið hefur ætíð verið þekkt sem snjórall og verður engin breyting á því í ár. „Þetta hefur verið kaldur og snjóþungur vetur,“ sagði Glenn Olsson yfirmaður keppninnar. „Þó höfum við smá áhyggjur að því að ekki sé nægur ís undir snjónum,“ bætti Olsson við.

Hitastigið í Torsby hefur verið undir frostmarki í nánast allan vetur, því bráðnar snjórinn aldrei almennilega til að búa til ís. Keppnishaldarar hafa því verið að bleyta þær sérleiðir sem mest verða eknar í rallinu gagngert til þess að búa til ís. Án íssins hafa nagladekkin ekkert að grípa í og skemma þar með vegina.

 

Einstakar aðstæður

“Það skemmtilegasta við að keyra í snjónum er að þú heyrir engin veghljóð, þú heyrir bara í vélinni og aðstoðarökumanninum,“ sagði Teemu Suninen, ökumaður M-Sport fyrir rallið um helgina. Hann bætti við að það sé auðveldara að einbeita sér að akstrinum ef það ert bara þú, aðstoðarökumaður og bíll, engin aukahljóð.

Hægt er að sjá upphitunarmyndband hér að ofan en rallið hefst á fimmtudaginn með stuttri sérleið í Karlstad. Aðalfjörið hefst svo á föstudaginn er eknar verða sjö langar sérleiðir. Rallinu lýkur með ofurleiðinni í kringum Torsby á sunnudaginn.

Hægt er að fylgjast með öllum tímum inni á heimasíðu heimsmeistaramótsins, wrc.com. Einnig er hægt að kaupa áskrift af WRC All Live þar sem áhorfendur geta fylgst með öllum sérleiðum í beinni útsendingu.

Bragi Þórðarson

Leave a Reply