Tanak bestur í snjónum

Sænska rallinu lauk núna um helgina en keppnin var önnur umferð heimsmeistaramótsins. Rallið hófst á fimmtudagskvöldið og lauk á sunnudaginn og alls voru eknir 317 kílómetrar á sérleiðum sem flestar voru ísilagðar.

Rallið í Svíþjóð er eina rallið á dagatalinu sem er eingöngu ekið á snjó og ís. Þó var hitastigið í Torsby um helgina yfirleitt vel yfir frostmarki og því voru þónokkuð margar leiðir rennandi blautir malarvegir.

Tanak með yfirburðasigur

Ott Tanak og Martin Jarveoja á Toyota Yaris stóðu uppi sem öruggir sigurvegarar um helgina, forskot þeirra í lok rallsins voru rúmar 50 sekúndur. Þeir tóku forystuna snemma í keppninni en urðu að láta hana af hendi seinnipart föstudagsins.

Tanak og Jarveoja náðu fyrsta sætinu aftur eftir að Teemu Suninen og Marko Salminen gerðu mistök á laugardagsmorgninum. Þá var eftirleikurinn auðveldur fyrir eistnesku áhöfnina og kórónuðu þeir sigurinn með besta tímanum á ofurleiðinni, sem gaf þeim fimm aukastig á heimsmeistaramótinu.

Ekkert pláss fyrir mistök í Svíþjóð

Allt fór fjandans til hjá hinum 25 ára gamla Suninen; útafaksturinn á sérleið 8 kostaði áhöfnina rúma mínútu og ekki skánaði ástandið eftir það. Nokkrum leiðum seinna óku þeir á tré með þeim afleiðingum að veltibúrið bognaði. Því var þeim vísað úr keppni en á ótrúlegan hátt tókst M-Sport liðinu að gera við skemmdirnar um nóttina og óku því Suninen og Salminen síðasta daginn.

Með sigrinum leiða Tanak og Jarveoja heimsmeistaramótið með sjö stiga forskot á Thierry Neuville og Niculous Gilsoul á Hyundai i20.

Neuville og Gilsoul urðu að sætta sig við þriðja sætið um helgina þrátt fyrir magnaðan akstur í síðari hluta keppninnar. Allt leit út fyrir að Belgarnir myndu ná öðru sætinu á síðustu leiðinni en svo var ekki.

Hörkuslagur um annað sætið

Esapekka Lappi og Janne Ferm á Citroën C3 náðu að hanga á öðru sætinu, aðeins þremur sekúndum á undan Neuville. Finnska áhöfnin tapaði fjórum sekúndum um miðbik síðustu sérleiðarinnar en frábær akstur á síðustu kílómetrunum tryggði þeim annað sætið.

Liðsfélagar Lappi hjá Citroën, sexföldu heimsmeistararnir Sebastian Ogier og Julian Ingrassia, urðu frá að hverfa eftir hádegi á föstudeginum er þeir óku útaf. Þeir sátu fastir í snjóskafli og hjálparlausir gátu þeir ekki losað C3 bílinn. Þrátt fyrir það er franska áhöfnin í þriðja sæti í mótinu eftir sigur í fyrstu umferðinni í Monte Carlo.

unnamed
Rétt eins og í fyrra virðist slagurinn um titilinn ætla að verða milli þeirra Tanak, Neuville og Ogier.

Jari Matti Latvala sló met um helgina er hann varð reyndasti ökuþór í sögu heimsmeistaramótsins, met sem Carlos Sainz hélt um árabil. Helgin byrjaði vel hjá Jari Matti og Mika Anttila en Finnarnir leiddu keppnina framanaf. Útafakstur á síðustu leið föstudagsins gerði hinsvegar út af við allar sigurvonir þeirra í Svíþjóð og kláruðu þeir keppnina utan stiga.

Tvöfaldi heimsmeistarinn Marcus Grönholm mætti til leiks eftir þrettán ára hlé. Endurkoman var þó ekki glæsileg því hinn 51 árs Grönholm lenti í miklum vandræðum um helgina.

Í spilaranum hér að neðan má sjá allt það helsta frá rallinu um helgina. Næst fer heimsmeistaramótið til Mexíkó þar sem krefjandi malarvegir taka á móti keppendum aðra helgina í mars.

Bragi Þórðarson

Leave a Reply