Myndband: Upphitun fyrir Mexíkó

Upphitun fyrir Mexíkó

Mexíkóska rallið, þriðja umferð heimsmeistaramótsins fer fram núna um helgina. Rallið byrjar á örstuttri sérleið í gegnum miðbæ Guanajuato á fimmtudagskvöldið.

Rallinu lýkur á sunnudag er eknar verða þrjár sérleiðir, þar á meðal ofurleiðin þar sem ökumenn eiga möguleika á auka stigum í mótinu.

Ott Tanak leiðir mót ökumanna á sínum Toyota Yaris og annar er Thierry Neuville á Hyundai i20. Báðir þessir ökumenn kláruðu fyrstu tvær keppnirnar á verðlaunapalli.

Tanak var nokkuð öruggur sigurvegari sænska rallsins fyrir þremur vikum. Þar varð ríkjandi heimsmeistari síðastliðinna sex ára, Sebastian Ogier, frá að hverfa eftir að hafa ekið útaf.

Ogier er þriðji í mótinu fyrir mexíkóska rallið eftir að hann vann fyrstu umferðina, heimakeppni sína í Monte Carlo.

Krefjandi aðstæður í Mið-Ameríku

Það skemmtilegasta við WRC er að ekkert rall er eins. Það á svo sannarlega við í Mexíkó þar sem ökumenn og bílar þurfa að takast á við mikla hæð yfir sjávarmáli.

Sérleiðir rallsins eru að meðaltali um 2500 metra fyrir ofan sjávarmál sem gerir loftið mjög þunnt. Fyrir vikið minnkar vélarafl bílanna talsvert og þurfa ökumenn því að breyta akstursstíl sínum í samræmi við það.

Álagið er þó ekki bara á bílana þar sem hæðin hefur líka mikil áhrif á alla liðsmenn, sér í lagi ökumenn og aðstoðarökumenn. Ekki hjálpar til að hitinn í fjöllunum kringum Guanajuato er alla jafna um 30 gráður.

Í spilaranum hér að neðan má sjá upphitunarmyndband fyrir rallið um helgina. Hægt er að fylgjast með öllum sérleiðum í beinni útsendingu með áskrift að WRC All Live.

Leave a Reply