Dramatík í Mexíkó

Uppgjör: Dramatík í Mexíkó

 

Aðeins tvær áhafnir af þeim tíu sem hófu mexíkóska rallið á fimmtudaginn luku keppni áfallalaust. Mjög krefjandi aðstæður settu svip sinn á keppnina.

Sexföldu heimsmeistararnir Sebastian Ogier og Julian Ingrassia enduðu uppi sem öruggir sigurvegarar er keppninni lauk á sunnudaginn. Fyrir vikið fá Frakkarnir 25 stig í heimsmeistarakeppninni ásamt fimm bónusstigum fyrir að ná hraðasta tíma á ofurleiðinni.

Fimmti sigur Ogier í Mexíkó

Ogier hafði unnið mexíkóska rallið alls fjórum sinnum fyrir helgina. Þar af voru tveir sigrar þar sem Ogier ræsti fyrstur, sem er versti staðurinn til að ræsa á. Því hugsaði Frakkinn sér gott til glóðarinnar um helgina þar sem hann ræsti númer þrjú, eftir að hafa dottið úr leik í sænska rallinu.

Ogier og Ingrassia náðu forystunni strax á fimmtu leið en létu hana af hendi á þeirri tíundu. Franska áhöfnin var þó ekki lengi í öðru sæti og náði aftur forystu á elleftu leið. Þegar þar var komið sögu höfðu þeir 15 sekúndna forskot. Sexföldu heimsmeistararnir spiluðu mjög vel á forskot sitt og luku keppni með 30 sekúndna mun í annað sætið.

Mexico

Tanak heldur fyrsta sætinu í mótinu

Fullt hús hjá Ogier þýðir að hann er nú í öðru sæti í mótinu þrátt fyrir að hafa dottið úr leik í síðustu keppni. Í fyrsta sæti eru Ott Tanak og Martin Jarveoja á Toyota Yaris, Eistlendingarnir náðu öðru sætinu í mexíkóska rallinu.

Tanak og Jarveoja óku í gegnum keppnina án óhappa, en þó skorti þá talsverðan hraða á föstudeginum enda ræstu þeir fyrstir. Á sunnudeginum höfðu þeir auga á öðru sætinu en voru þeir aðeins 2,2 sekúndum á eftir Elfyn Evans sem þá var annar.

Það tók eistnesku áhöfnina ekki langan tíma að hrifsa annað sætið af Bretunum og lauk Tanak keppni með tæpar 20 sekúndur í forskot á Evans og Martin.

mexico2

Mikil afföll

Andreas Mikkelsen og Anders Jaeger á Hyundai i20 náðu forystu í keppninni á föstudagsmorgninum. Sú forysta entist ekki lengi og urðu þeir frá að hverfa strax á fimmtu leið með tjónaðan hjólabúnað.

Teemu Suninen og Marko Salminen komust ekki einu sinni að sérleið númer þrjú. Strax á annarri leið óku þeir Ford Fiestu bifreið sinni harkalega á klett og urðu frá að hverfa. Tjónið var slíkt að M-Sport liðið gat ekki gert við bílinn um nóttina.

Rétt eins og Mikkelsen þá leiddi Kris Meeke og Seb Marshall rallið um stund. Bretarnir náðu forystunni eftir hreint út sagt magnaðan akstur á 10. sérleið en á 11. leið sprengdu þeir dekk.

Meeke og Marshall tóku þá ákvörðun að klára 32 kílómetra Otates leiðina á sprungnu afturdekki. Fyrir vikið töpuðu þeir einni og hálfri mínútu á leiðinni en við aksturinn brutu þeir spyrnu og töpuðu enn meiri tíma á næstu leið á eftir.

Þrátt fyrir þetta tímatap enduðu þeir félagar í fimmta sæti og nældu sér í fjögur bónusstig á ofurleiðinni. Meeke er því fjórði í heimsmeistarakeppninni en Toyota leiðir keppni bílasmiða.

mexico3

Á tíundu sérleið urðu Esapekka Lappi og Janne Ferm frá að hverfa eftir að hafa lent utan vegar. Gríðarlega svekkjandi þar sem ekki var skráma á bílnum, heldur festu þeir Citroen bílinn í vegkantinum.

Bíll þeirra Lappi og Ferm var á slíkum stað að mótshaldarar þorðu ekki annað en að stoppa leiðina af öryggisástæðum. Þetta kom sér vel fyrir liðsfélaga Lappi, þá Ogier og Ingrassia, þar sem þeir sprengdu hægra framdekk á þessari sömu leið.

Alternator vandræði í hitanum

Bæði Dani Sordo á Hyundai og Jari Matti Latvala á Toyota urðu frá að hverfa með bilaða alternatora.

Ástæða þess er sú að sum lið kjósa að láta alternatora bílanna fríhjóla á sérleiðunum til að bæta upp fyrir aflleysið sem er í háu fjöllunum í Mexíkó. Fyrir vikið hleður bíllinn engu rafmagni og verða ökumenn því að stóla á að nóg rafmagn sé á rafgeymi bílanna. Það sem gerðist hjá Sordo og Latvala er það að þegar þeir létu alternatorinn hlaða á ný eftir sjöundu sérleið var álagið og hitinn of mikill svo hann gaf sig.

Evans agaður á verðlaunapalli

Elfyn Evans og Scott Martin á Ford Fiesta voru önnur tveggja áhafna sem luku rallinu án þess að sprengja svo mikið sem eitt dekk. Fyrir vikið kláruðu þeir á verðlaunapalli í fyrsta skiptið á árinu.

Evans er nú aðalökumaður M-Sport liðsins eftir að Sebastian Ogier fór frá liðinu í vetur. Bretinn virðist ætla að nýta sér tækifærið vel og sýndi mjög agaðan akstur í fjöllunum í Mexíkó.

Thierry Neuville og Niculaus Gilsoul sprengdu dekk strax á annarri leið keppninnar. Það þýddi að rásstaður þeirra var mjög slæmur fyrir langa laugardaginn og náðu þeir sér því aldrei á strik. En vegna áfalla annarra enduðu þeir í fjórða sæti og sitja nú þriðju í mótinu.

Næsta umferð heimsmeistaramótsins fer fram á malbikinu á Korsíku. Þar verða Ogier og Ingrassia á heimavelli og ætla þeir að hamra járnið meðan það er heitt og næla sér í þriðja sigurinn á tímabilinu.

https://www.youtube.com/watch?v=n-7QG4WgJl0

Bragi Þórðarson

Leave a Reply