10.000 beygjur

10.000 beygjur framundan um helgina

Franska rallið fer fram um helgina og er keppnin fjórða umferð heimsmeistaramótsins. Rallið er oft kallað The Rally of 10.000 corners og er það viðeigandi þar sem malbiksleiðirnar á Korsíku eru gríðarlega krefjandi.

Þetta er fyrsta alvöru malbiksrallið á dagatalinu en keppnin verður sérstaklega erfið að þessu sinni. Ástæðan er sú að rúmlega helmingur þeirra 14 sérleiða sem eknar verða eru nýjar. Því verður góð leiðarskoðun lykill að velgengni í Frakklandi.

Ott Tanak leiðir heimsmeistaramót ökumanna á sínum Yaris, annar er ríkjandi heimsmeistarinn og heimamaðurinn Sebastian Ogier á Citroen. Auðvelt væri að veðja á Frakkann á franska bílnum í Frakklandi en Tanak hefur verið ótrúlega fljótur í ár.

Svo má ekki gleyma Thierry Neuville og Hyundai liðinu. Liðið kemur með allar stóru byssurnar með sér til Korsíku. Þar má helst nefna nífalda heimsmeistarann Sebastian Loeb ásamt malbikssérfræðingnum Dani Sordo. Þá er Neuville enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri á árinu og má því búast við mikilli grimmd frá Belganum.

Rallið hefst á föstudaginn er eknar verða sex sérleiðir. Tommi Makinen, fjórfaldur heimsmeistari og núverandi liðsstjóri Toyota, hafði á orði að úrslitin myndu ráðast á laugardeginum. Þá eru aftur eknar sex leiðir og þar á meðal er tvisvar ekin tæplega 50 kílómetra löng sérleið.

Rallinu lýkur að venju á sunnudegi en þá verða aðeins eknar tvær leiðir. Þar á meðal er ofurleiðin sem gefur aukastig til heimsmeistara.

 

Bragi Þórðarson

Leave a Reply