Gríðarlega krefjandi rall framundan

Aðeins fimm stig skilja að efstu þrjá ökumennina í heimsmeistaramótinu í ralli þegar mótið fer yfir til Suður-Ameríku. Fimmta umferðin fer fram í Argentínu um helgina.

Það má skipta mótinu upp í þrjá hluta og er því annar þriðjungurinn að byrja um helgina. Argentíska rallið er það fyrsta af fimm keppnum í röð sem fara fram á möl. Eftir tvær vikur fara svo liðin í fyrsta skipti til Perú þar sem sjötta umferðin fer fram hinum megin við Andesfjöllin.

Þeir Thierry Neuville, Sebastian Ogier og Ott Tanak berjast um titilinn rétt eins og á síðasta ári. Neuville fékk sigurinn afhentan á silfurfati í síðustu keppni og leiðir hann því mótið, aðeins tveimur stigum á undan Ogier og Tanak kemur þar þremur stigum á eftir.

Þessi annar þriðjungur tímabilsins er gríðarlega mikilvægur í titilslagnum og gæti vel farið svo að mótið verði að mestu ráðið eftir finnska rallið í sumar.

Tanak vann argentíska rallið í fyrra og árið þar áður var það Neuville sem stóð uppi sem sigurvegari á krefjandi malarvegunum. Ótrúlegt en satt hefur heimsmeistari síðastliðinna sex ára, Sebastian Ogier, aldrei unnið í Argentínu.

Mikið vatnsveður hefur verið síðustu vikur og mánuði í kringum Cordoba, þar sem rallið fer fram. Því má búast við miklu vatni í frægum ánum sem bílarnir þurfa að fara yfir og verða þá malarvegirnir mýkri en venjulega.

Rásröð gæti því skipt miklu og er það Tanak sem ræsir aftast af þremenningunum í titilslagnum. Það ætti að henta best í þessum aðstæðum og ætti Eistlendingurinn því að hafa besta gripið á föstudeginum

Leave a Reply