Neuville vinnur aðra keppnina í röð

Thierry Neuville og Nicolas Gilsoul á Hyundai tryggðu sér sinn annan sigur í röð er þeir komu fyrstir í mark í argentínska rallinu um helgina.

Liðsfélagar þeirra, Andreas Mikkelsen og Anders Jaeger, náðu öðru sætinu. Þetta voru kærkomin úrslit fyrir Norðmennina sem hafa ekki verið á verðlaunapalli síðan í sænska rallinu í fyrra.

Neuville var í hörkuslag um fyrsta sætið við Ott Tanak á Toyota þangað til að alternatorinn í Yarisnum gaf sig á 14. sérleið. Tanak varð því að sætta sig við áttunda sætið; gríðarlega svekkjandi þar sem Ott var mjög hraður í Argentínu.

Thierry eykur forskotið

Neuville leiddi heimsmeistaramótið fyrir keppnina og jók forskot sitt í 10 stig á sexfalda heimsmeistarann Sebastian Ogier. Ogier náði þriðja sætinu eftir viðburðaríkt rall.

Ogier var annar eftir fyrsta dag en lítið gekk hjá Frakkanum á laugardaginn. Hann kvartaði yfir fjöðruninni í Citroen bílnum og virtist vanta töluvert upp á hraðann.

Á tólftu sérleið ók hann á girðingu með þeim afleiðingum að vökvastýrið bilaði. Alls tapaði Ogier um það bíl mínútu á hamförunum og var dottinn niður í sjötta sætið í hádeginu á laugardeginum.

Eftir hádegi setti sexfaldi heimsmeistarinn í annan gír og náði bestu tímum hvað eftir annað. Það var svo á síðustu sérleið rallsins sem hann náði þriðja sætinu af Kris Meeke á Toyota.

Erfiðar aðstæður um helgina

Meeke byrjaði rallið frábærlega í vatninu og drullunni á fyrsta degi. Hann hafði á orði að reynsla hans á enduro-hjólum hjálpaði mikið í þessum aðstæðum.

Bretinn leiddi rallið eftir föstudaginn en Meeke átti engin svör við Neuville og Tanak á laugardeginum og þurfti að lokum að sætta sig við fjórða sætið á eftir Ogier.

Esapekka Lappi hefur ekki byrjað feril sinn vel hjá Citroen. Finninn var aðeins með 26 stig fyrir rallið og náði hann ekki að bæta við það í Argentínu.

Á áttundu sérleið velti hann C3 bílnum harkalega er hann kom of hratt yfir hæð. Sem betur fer slapp hann ásamt aðstoðarökumanni sínum, Janne Ferm, ómeiddur en þeir voru þó fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.

Esapekka Lappi velti harkalega um helgina.

Elfyn Evans endaði líka á toppnum í Argentínu eftir að hafa velt Ford Fiesta bíl sínum á tíundu sérleið. Svekkjandi fyrir Bretann sem stóð sig afar vel í síðustu keppni.

Næst fara liðin yfir Andesfjöllin til Síle en það verður í fyrsta skiptið sem WRC er haldið þar í landi.

16024_Overall-Argentina-2019_001_896x504
Úrslit Argentínu rallsins

 

 

 

16023_Drivers-Argentina-2019_001_896x504
Staðan í keppni ökumanna eftir Argentínu rallið.
16022_Manufacturers-Argentina-2019_001_896x504
Staðan í liðakeppninni eftir Argentínu rallið.

Leave a Reply