Sindratorfæran 2019

Óhætt er að segja að spennan sé að ná hámarki hjá torfærufólki. Fyrsta keppni sumarsins fer fram á morgun; Sindratorfæran á Hellu.

Hellutorfæran er líklega frægasta torfærukeppni sem sögur fara af. Búið er að keppa á þessu svæði í áratugi og einnig hefur keppnissvæðið mjög mikla sérstöðu fyrir þær sakir að þar er eini staðurinn sem ekið er yfir á. Mýrin á líka sinn sess í „þjóðarsál“ torfæruáhugafólks. Mýrin er einstök raun fyrir bílana en reynir líka mikið á ökumenn. Gæta þarf að stefnunni – smá mistök og þú ert kominn í næsta póstnúmer.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Þór Þormar Pálsson

Þór Þormar Pálsson stóð uppi sem sigurvegari í fyrra og þykir jafnvel líklegur til að endurtaka leikinn. Þór hefur verið að ná betri og betri tökum á bílnum sem er margfaldur meistarabíll. Haraldur Pétursson smíðaði bílinn fyrir margt löngu og óhætt er að segja að þessi smíði er sú best heppnaða sem sést hefur.

_MG_9565
Atli Jamil Allanson

Atli Jamil missti af sigri á Hellu í fyrra eftir að stýrislögn bilaði. Þar fóru dýrmæt stig og hugsanlegur sigur. Atli situr hjá á morgun, torfæruáhugafólki til mikillar gremju enda mjög fær ökumaður á góðum bíl.

Veðurguðirnir eru komnir í sparifötin og ætla greinilega að gera sitt til að Sindratorfæran 2019 verði hin besta skemmtun fyrir áhorfendur sem og keppendur. Blíðskaparveður er í kortunum og blaðamenn motorsport.is ætla að fanga herlegheitin á myndavél og birta afraksturinn hér.

Ef til er sú mannvera sem ekki veit hvar Sindratorfæran fer fram þá skal því lýst í fáum orðum: Akið austur að Hellu, akið lítið eitt lengra, takið vinstri beygju þar sem þar til gerð auglýsingaskilti gefa slíkt til kynna. Akið nokkra kílómetra, ca. í 10 mínútur þar til komið er að innakstri að keppnissvæðinu, það er vel merkt.

Sjáumst á Sindratorfærunni 2019!
motorsport.is

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand, Þórður Bragason

Leave a Reply