Fjórir keppendur voru skráðir til leiks í götubílaflokki. Steingrímur Bjarnason þótti líklegastur til sigurs og leiddi lengi vel.

Það var þó Jakob Nielsen Kristjánsson sem tók forystuna í fyrstu braut þegar hann fór einn upp og lagði línurnar fyrir aðra keppendur. Steingrímur tók þá forystu til baka í næstu braut og hélt henni allt þar til komið var í ána. Þar klikkaði eitthvað hjá Steingrími meðan Óskar Jónsson á nýsmíðuðum bíl hirti forystuna og hélt henni til enda.

Óskar stóð sig einfaldlega best í ánni og í mýrinni. Þannig náði hann forystunni af Steingrími og hampaði sigri að keppni lokinni.
Jakob Nielsen sýndi frábær tilþrif í fyrstu braut þegar hann fór einn alla leið. Reyndar var það svo að keppendum leist ekkert á lokabarðið í fyrstu braut, töldu það ófært.

Jakob Pálsson á Hulk átti ekki góðan dag. Missti af fyrstu braut og er motorsport.is ekki kunnugt um ástæðu þess en eflaust einhver bilun í bílnum. Gengur betur næst skulum við vona.

Steingrímur Bjarnason var að vonum svekktur. Keppnin fór vel af stað og allt stefndi í sigur en nokkur smá mistök geta skilið á milli þess sem verðskuldar sigur og þess sem gerir það ekki. Þannig er það.
Texti: Þórður Bragason
Myndir og myndvinnsla: Þórður Bragason og Malín Brand