Slagurinn á Hellu 2019

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Geir Evert Grímsson, sigurvegari Hellutorfærunnar 2019

Hellutorfæran 2019 verður ein þeirra keppna sem Þór Þormar Pálsson vill sjálfsagt gleyma sem fyrst og sömu sögu má eflaust segja um Steingrím Bjarnason. Báðir köstuðu þeir frá sér hugsanlegum sigri.

Eftir fyrstu tvær brautirnar var Þór Þormar efstur með 600 stig en þrír keppendur voru skammt undan með 560 stig. Þriðja braut reyndist erfið, lokabarðið kastaði bílum í allar áttir og enduðu tveir með kollhnís gegnum endamarkið. Þór Þormar tók kollhnís og náði ekki að rétta bílinn af, endaði á toppnum og lendingin var hörð. Einhverjar skemmdir urðu fremst á bílnum sem áttu eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Ingólfur Guðvarðarson komst upp en Geir Evert Grímsson velti bíl sínum í barðinu fyrir endamark.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Þór Þormar Pálsson stökk og lenti illa í lokabarði þriðju brautar
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Aukastífa var sett í veltibúrið eftir harða lendingu í þriðju braut

Þór Þormar var kominn með 900 stig; þokkalegt forskot fyrir fjórðu braut sem var tímabraut. Ingólfur var í öðru sæti með 830 stig og Haukur Viðar með 810 stig. Geir Evert komst ekki upp þriðju braut og féll í fjórða sætið. En Þór var bara kominn hálfa leið í tímabrautinni þegar lagnir fyrir stýristjakk brotnuðu – afleiðing veltunnar í brautinni á undan. Þar með var hann fallinn af toppnum og átti nú mikið verk fyrir höndum til að landa sigri.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Haukur Viðar Einarsson á fullri ferð á ánni á Hellu

Áin á Hellu hefur lengi verið heimsfræg enda einstök braut. Jesús Kristur er sagður hafa gengið á vatni en íslenskir jeppamenn hafa löngum sagt að engin ástæða sé til að ganga sé hægt að aka sömu leið. Sama á við um ána á Hellu, yfir hana er ekið á fullri ferð.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Varúð! Radarmælingar

Lögreglan á Suðurlandi var við radarmælingar á svæðinu og mældist a.m.k einn ökumaður á „ólöglegum hraða“ en þó er ekki ljóst hver löglegur hraði er á vatni svo ekki kom til sekta. Það var Haukur Viðar Einarsson á Heklu sem átti hraðamet dagsins, mældist á 98 kílómetra hraða og ætla má að þar skáki hann Jesú Kristi allhressilega. Þór Þormar fór ekki langt þar sem annað afturhjólið brotnaði undan bílnum í fyrri hluta brautarinnar: þetta vara bara ekki hans dagur. Til að bæta gráu ofan á svart klikkaði hann á að klára mýrina.

Fyrir mýrina var Haukur Viðar með forystu, 22 stigum meira en Geir Evert og Ingólfur aðeins 2 stigum þar á eftir. Úrslit myndu ráðast í mýrinni. Haukur klúðraði mýrinni, festi bílinn og sat eftir með sárt ennið. Bæði Ingólfur og Geir Evert komust alla leið en Ingólfur fékk fleiri refsistig að því er virtist, þeir einu sem vissu betur voru dómarar og keppnisstjórn.

Hvorki Geir Evert né Ingólfur vissu hvor þeirra hafði unnið, þeir biðu eftir útgefnum úrslitum keppnisstjórnar. Sú bið var eflaust erfið enda mikið í húfi.

Svo fór að Geir Evert stóð uppi sem sigurvegari þar sem hann fékk færri refsistig í mýrinni. Ingólfur Guðvarðarson var í öðru sæti og Haukur Viðar Einarsson í því þriðja.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Geir Evert Grímsson ók Sleggjunni til sigurs á laugardaginn

Þessi úrslit eru mjög góð fyrir Geir Evert þar sem Ingólfur var búinn að gefa út að hann myndi ekki mæta í allar keppnir sumarsins. Geir er því með þægilegt forskot en vissulega er tímabilið rétt að byrja og við spyrjum að leikslokum.

Texti: Þórður Bragason
Myndir og myndvinnsla: Þórður Bragason og Malín Brand

 

Leave a Reply