Top Gear á Hellu

Breska ríkissjónvarpið hefur um árabil framleitt sjónvarpsþættina Top Gear. Fjöldi Íslendinga kannast við þættina sem glatt hafa margan bílaáhugamanninn.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Chris Harris (t.v.) og Freddie Flintoff (t.h.)

Nýir stjórnendur þáttanna birtust á Hellu um helgina og tóku þátt í keppninni. Þetta voru þeir Freddie Flintoff og Chris Harris sem fá hér örlitla kynningu áður en lengra verður haldið:

Chris Harris er breskur bílablaðamaður og akstursíþróttamaður, auk þess sem hann hefur gert það gott sem einn þriggja kynna Top Gear frá árinu 2017. Hann hóf störf sem bílablaðamaður hjá blaðinu Autocar og reynsluók þar hinum ýmsu bílum til ársins 2008. Akstursíþróttamannsferill hans er sannarlega ekki til að skammast sín fyrir en hann hefur unnið ýmsa titla frá árinu 2000 og má nánar fræðast um það á  YouTube síðunni hans.  Til að gefa lesendum einhverja mynd af þessum ágæta manni sem ók Heimasætunni af myndugleika á Hellutorfærunni þá eru hér nokkrar staðreyndir sem fram koma á vef BBC:

Eftirlætis akstursíþróttahetja Chris Harris er hinn þýski Walter Rohrl. Besti bíll (enn sem komið er) sem Chris hefur ekið er BMW 320d og sá skemmtilegasti mun vera Porsche 911 3.0RS frá árinu 1974. Sjálfur ekur hann um á BMW M3 dags daglega  og er mikill BMW-náungi í gegn og í honum slær M-hjarta. Fyrsta bílaminning hans tengist einmitt BMW en hún er frá því hann sat, fimm ára gamall pjakkurinn, aftur í bíl föðurins, BMW 323i.

Bakgrunnur hins þáttarstjórnandans, Freddies Flintoffs (Andrew Freddie Flintoff), kemur nokkuð á óvart. Hann er nefnilega fyrrum krikketleikari sem átti glæstan feril í þeirri íþrótt sem er okkur Íslendingum heldur framandi og á lítt skylt við akstursíþróttir.

Sjálfur hefur hann greint frá því að ökuprófinu hafi hann loks náð í þriðju tilraun og þegar skírteinið var komið í veskið var keyptur fyrir hann bíll. Lancashire County Cricket Club afhenti hinum sautján ára krikketleikara bíl sem var þó ekkert tryllitæki. Þetta var Rover 216 Coupe. Þegar krikketklúbbur gefur þér bíl er sennilega best að segja bara sem fæst. Hann má þó eiga það að hann reif sig upp úr þessari vitleysu og þegar hann keypti sér sjálfur bíl varð Porsche Boxter fyrir valinu. Ekki amalegur „fyrsti“ bíll. Því næst eignaðist hann BMW M5 (E39 með V8 – ekki leiðinlegt það) og síðan hefur hann átt hina ýmsu bíla. Til að við áttum okkur á manninum er rétt að geta þess að versti bíll sem hann hefur átt var Overfinch Range Rover og dags daglega ekur hann um á svörtum tíu ára gömlum Porsche 997 Turbo. Jú, og það eru einhverjir fleiri bílar í skúrnum.

Freddie hætti atvinnumennsku í krikket árið 2014 og hefur síðan þá komið að ýmiss konar sjónvarpsefni. Ekki má sleppa að nefna að hann hefur skrifað heilar fimm sjálfsævisögur, sem er sannarlega grjótmagnað fyrir mann sem fæddur er 1977! Nú er ljóst að Freddie er búinn að setja í gír, kasta kylfunni og brunar hressilega af stað inn í mótorsportið með því að kynnast rammíslenskri torfæru. Og ekki er það nú amaleg byrjun!

En aftur að Hellu! Þeim félögum leist reyndar ekkert á brautirnar eftir að hafa skoðað þær að morgni laugardagsins 4. maí. Skelfingu lostnir lögðu þeir þó af stað og verður að segjast að þeir stóðu sig vonum framar í akstrinum.

Þó aksturinn hafi gengið vel voru samt önnur atriði sem hinn almenni ökumaður veit ekki um sérsmíðuð torfæruökutæki. Eitt var að setja bíl með blöndungi í gang. Þar dugar ekki að starta.  Það þarf stundum að stíga nokkrum sinnum á bensíngjöfina til að dæla smá bensíni inn á vélina. Þannig stoppaði annar þeirra í einni braut og kom bílnum ekki í gang. Bíllinn var dreginn úr brautinni þar sem aðstoðarmaður benti ökumanninum á að stíga nokkrum sinnum á gjöfina og bíllinn rauk í gang.

En frammistaðan var samt eftirtektarverð.  Þeir luku keppni í 6. og 7. sæti og hafði Freddie betur. Það verður áhugavert að sjá þeirra sýn á keppnina. Þeir munu fjalla um hana í Top Gear þætti í júlí n.k.

Svona heimsókn gerist ekki bara að sjálfu sér; margir hafa lagt á sig mikla vinnu til að gera þetta mögulegt. Má þar helst nefna Guðbjörn Grímsson ásamt þeim Elvu og Helgu Stefánsdætrum. Aðrir komu einnig að þessu og má þar nefna Ólaf Guðmundsson, Flugbjörgunarsveitina á Hellu og Garðar Gunnarsson hjá AÍFS. Við hjá motorsport.is viljum þakka þeim og öllum öðrum sem að þessu komu fyrir frábært framtak.

Hér má sjá video af keppninni frá Jakob Cecil.

Texti: Þórður Bragason og Malín Brand
Myndir og myndvinnsla: Þórður Bragason og Malín Brand
Video: Jakob Cecil

Leave a Reply