Ný áskorun um helgina

Sjötta umferð heimsmeistaramótsins í ralli fer fram í Síle um helgina. Aldrei hefur verið keppt í þar í landi á mótinu og er þetta því ný áskorun fyrir öll lið og ökumenn.

Thierry Neuville leiðir keppni ökuþóra með tíu stiga forskot á sexfalda heimsmeistarann Sebastian Ogier. Þar á eftir kemur Ott Tanak á Toyota Yaris.

Ogier færði sig frá M-Sport Ford yfir til Citroen fyrir keppnistímabilið. Frakkinn hefur verið í dálitlu basli með C3 WRC bílinn í ár og er ekki alveg sáttur með hvernig bíllinn höndlar.

Ott Tanak hefur að undanförnu náð bestu tímum á sérleiðum en bilanir hafa sett strik í reikninginn hjá Eistlendingnum. Tanak er nú 28 stigum á eftir Neuville.

Hyundai náði frábærum úrslitum í síðustu keppni í Argentínu. Neuville hreppti fyrsta sætið og liðsfélagi hans, Andreas Mikkelsen, varð annar. Þetta var í fyrsta skiptið sem Norðmaðurinn kemst á verðlaunapall í rúmt ár.

Fyrir vikið leiðir Hyundai heimsmeistaramót bílaframleiðenda með 37 stiga forskot á Toyota. Citroen situr í þriðja sætinu.

Rallið í Síle hefst á föstudaginn er eknar verða sex sérleiðir. Þar á meðal verður lengsta leið rallsins ekin tvisvar.

Vegirnir eru svipaðir þeim í breska rallinu, segja heimamenn. Sem sagt krefjandi malarvegir sem ættu ekki að vera alveg jafn grófir og í Argentínu.

Í myndskeiðinu hér að neðan má heyra hverju ökumennirnir vonast eftir í Síle en eftirvæntingin er mikil.

 

Bragi Þórðarson

Leave a Reply