Tanak vinnur og Neuville veltur

Sjöttu umferð heimsmeistaramótsins í ralli lauk um helgina. Keppnin fór fram í Síle og var sú fyrsta sem haldin var þar í landi.

,,Ég finn fyrir ótrúlegum rallýáhuga hérna, alveg frá byrjun rallsins til enda var allt fullt af áhorfendum’’ sagði Ott Tanak eftir keppnina.

Tanak og Martin Jarveoja stóðu uppi sem sigurvegarar eftir frábæran akstur á sínum Toyota Yaris. Eistlendingarnir sýndu snilli sína á löngum og krefjandi leiðum föstudagsins og byggðu upp forskot sem þeir létu aldrei af hendi.

Liðsfélagar þeirra hjá Toyota áttu ekki jafngóða helgi. Jari Matti Latvala endaði ellefti eftir að hafa brotið öxul á tólftu leið.

Chile-1
Úrslit keppninnar

Ökumenn á toppnum í Síle

Kris Meeke velti Yaris bifreið sinni á sjöundu leið og tapaði við það sex mínútum. Hann þurfti svo að aka næstu tvær sérleiðirnar án framrúðu og með yfirbygginguna í henglum. Það virtist þó ekki hægja á Bretanum sem náði ágætistímum á tjónuðum Yaris.

Það fór verr hjá Thierry Neuville og Nicolas Gilsoul sem leiddu heimsmeistaramótið fyrir rallið á sínum Hyundai i20. Neuville fór aðeins of hratt yfir hæð á áttundu leið með rosalegum afleiðingum.

Hyundai bíll þeirra kútvalt og fór gjörsamlega í klessu. Sem betur fer sluppu Belgarnir ómeiddir en Neuville fékk þó lítinn skurð á annan fótinn.

,,Það er í lagi með okkur, ástæða þess að ég er á hækjum er bara lítill skurður, ég mun mæta ferskur til Portúgals’’ sagði Neuville er hann kom til baka á þjónustusvæðið.

Chile-3
Staða framleiðenda í mótinu
Chile-2
Staða ökumanna í mótinu

 

Sexfaldi meistarinn leiðir mótið

Hrakfarir Thierry þýða að Sebastian Ogier og Julian Ingrassia leiða heimsmeistaramótið. Frakkarnir enduðu í öðru sæti í Síle eftir hörkuslag við landa sína Sebastian Loeb og Daniel Elena.

Loeb varð að sætta sig við þriðja sætið en þetta er í 118. skiptið sem nífaldi heimsmeistarinn stendur á verðlaunapalli í WRC.

M-Sport Ford getur verið sátt með helgina. Elfyn Evans endaði fjórði og liðsfélagi hans, Teemu Suninen varð fimmti.

Andreas Mikkelsen varð sjöundi á sínum Hyundai. Kóreski bílaframleiðandinn er kominn með töluvert forskot á Toyota og Citroen í keppni bílasmiða.

Næsta umferð heimsmeistaramótsins fer fram í Portúgal um næstu mánaðarmót. Það verður því nóg um að vera eftir þrjár vikur þar sem fyrsta umferð Íslandsmótsins í ralli fer fram sömu helgi.

Bragi Þórðarson

Leave a Reply