Orkurallið 2019

_MG_1997

Akstursíþróttafélag Suðurnesja hélt sitt árlega rall um helgina. 19 áhafnir voru skráðar til leiks en tvær þeirra mættu ekki á ráslínu. Fyrirfram var búist við hörðum slag nokkurra áhafna. Sigurvegari síðasta árs, Ragnar Bjarni Gröndal, þótti líklegur en Baldur Hlöðversson með Heimi Snæ Jónsson sér við hlið þótti sömuleiðis líklegur. Gunnar Karl Jóhannesson hefur sýnt að hann er til alls líklegur og vert að taka hann með í hóp líklegra sigurvegara. Sigurður Bragi Guðmundsson hefur unnið þetta rall oft en bíllinn hefur leikið hann grátt undanfarið og þótti hann ekki jafn líklegur fyrir vikið. Valdimar Jón Sveinsson er síðastur í upptalningu þeirra sem líklegir þóttu til sigurs en hann ásamt Aðalsteini Símonarsyni þóttu bara mjög líklegir sigurvegarar.

_MG_2828

Öllu erfiðara var að reyna að spá í úrslit AB varahlutaflokksins; þar voru nánast allir jafn líklegir.

Keppnin hófst á föstudagskvöldi og þá var m.a. ekið um svæði sem heitir Patterson. Einhverjir keppendur villtust og fóru jafnvel ranga leið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem keppendur lenda í slíkum vandræðum á Patterson. Sérleiðin um Keflavíkurhöfn er búin að festa sig í sessi og fjöldi áhorfenda var á staðnum líkt og venjulega.

_MG_1904

Valdimar og Aðalsteinn slógu taktinn og náðu besta tíma á fyrstu leið og gáfu sjálfum sér von um sigur, von sem dó skömmu síðar. Á leið þeirra um Stapafell skaust steinn í olíusíuna og þar með lauk þeirra keppni, a.m.k. þann daginn en þeir mættu morguninn eftir, staðráðnir í að ná einhverjum stigum. Sú von dó þegar skiptigaffall í gírkassa hamlaði för og þar lauk þeirra keppni, í annað sinn.

_MG_2349

Fyrir keppnina sagði Sigurður Bragi að hans markmið væri að klára; fyrst og fremst að klára. Hann sagði að of langt væri síðan hann ók í endamark og því yrði hann að hætta að hugsa um sigur, í bili a.m.k. Keppni Sigurðar og Ágústs Guðmundssonar gekk ekki áfallalaust. Þeir fengu dæmt á sig þjófstart á höfninni og villtust í þokkabót á Patterson. Það voru þó minnstu áhyggjur þeirra því olíuþrýstingur var ekki viðunandi og ljóst að eitthvað væri að undir vélarhlífinni. Um miðjan seinni dag keppninnar sáu þeir að þeir væru bara að eyðileggja vélina og tilgangslaust að halda áfram.

_MG_2276

Ríkjandi Íslandsmeistari, Ragnar Bjarni Gröndal með Emilíu Rut Hólmarsdóttur Olsen sér við hlið ætluðu sér stóra hluti; voru einni sekúndu frá fyrsta sæti eftir fyrri daginn og markið sett á sigur. Eftir fyrstu ferð um Djúpavatn voru þau komin í fyrsta sæti og allt leit vel út. Brotin spyrna á afturhjóli felldi þau úr keppni, keppni sem átti að enda með sigri. Mikil vonbrigði. Vonbrigðin hurfu hins vegar eins og dögg fyrir sólu síðar þann sama dag þegar þau trúlofuðu sig og óskar motorsport.is þeim innilega til hamingju með hvort annað.

_MG_1886

Baldur og Heimir tóku fyrri dag keppninnar rólega, kannski of rólega. Þeir voru í þriðja sæti, 39 sekúndum frá fyrsta sæti. Þeir vissu e.t.v. sem var að úrslit keppninnar myndu ekki ráðast af sekúndum heldur því einu að halda haus og ná að keyra fulla ferð um Djúpavatn. Segja má að reynslan hafi skilað þeim sigri því þeir keyrðu sig aldrei í vandræði og náðu að tryggja sér góða forystu á fyrstu tveimur ferðunum um Djúpavatn. Með örugga forystu í vasanum gáfu þeir lítillega eftir; rall er ekki búið fyrr en það er búið. Þeir luku keppni í fyrsta sæti og eru vel að þeim sigri komnir.

AB varahlutaflokkurinn

Eins og áður kom fram var öllu erfiðara að spá fyrir um úrslit í AB flokknum: Margir keppendur á mjög svipuðum bílum og margir búnir að sanna að þeir hafa hraðann sem þarf til að vinna.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Guðjón Þórólfsson og Magnús Ingi Einarsson komu skemmtilega á óvart með flottum akstri á Toyota RAV4. Þeirra glæsilegu för lauk þó á fyrstu ferð um Djúpavatn þegar bifreiðin sneri hjólum upp í loft og taldist þar með oltin. Þar lauk þátttöku þeirra í keppni en þeir sluppu ómeiddir þó aðra sögu sé að segja af bílnum.

_MG_2828

Garðar Gunnarsson og Óskar Sólmundrson leiddu AB flokkinn í lok fyrsta dags en Jósef Heimir Guðbjörnsson og Guðni Freyr Ómarsson sóttu hart að þeim og náðu forystu áður en haldið var á Djúpavatnið. Garðar og Óskar háðu varnarbaráttu um annað sætið við nokkrar áhafnir en svo fór að Halldór Vilberg Ómarsson og Valgarður Tómas Davíðsson hömpuðu öðru sæti í AB varahlutaflokknum.

_MG_1934

Jósef og Guðni létu forystuna aldrei af hendi og unnu verðskuldaðan sigur. Þess má geta að þegar Guðni var síðast aðstoðarökumaður í þessum bíl vann áhöfnin titilinn það árið.

_MG_3118

Nýliðarnir Gedas Karpavicius og Zilvinas Kauneckas kepptu á Subaru Impreza; mjög öflugur bíll sem gæti dugað til sigurs. Þeir náðu ekki að keyra sig upp í toppslaginn en það fór ekki framhjá fréttariturum motorsport.is að þeir skemmtu sér konunglega sem og þjónustuliðið þeirra. Þeir töluðu svolítið um vegina, þessa grófu vegi. Þeir höfðu aldrei séð annað eins og eiga eftir að læra að aka á svona mjóum og grófum vegum.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply