Dans á rósum?

Lífið er ekki dans á rósum og það er rallý ekki heldur. Rallý er kannski frekar dans á þyrnirósum, allavega oft.

Orkurallið sem fór fram liðna helgi endaði ekki á þann veg sem sumir keppendur höfðu ætlað. Hér eru helstu orsakir þess að sumar áhafnirnar skiluðu sér ekki í endamark.

_MG_1904
Valdimar Jón Sveinsson og Aðalsteinn Símonarson

Fyrstir í upptalningunni eru þeir Valdimar Jón Sveinsson og Aðalsteinn Símonarson. Stundum er lukkan bara í fríi og þannig var það þennan dag. Steinn komst í olíusíuna, gataði hana og þar með var ævintýrið búið, allavega þann daginn því þeir komu tvíefldir til leiks daginn eftir. Síðari dagurinn byrjaði ekki vel, þeir keyrðu næsta bíl uppi og sátu „fastir“ í rykinu af honum, náðu ekki að sýna hvað í þeim bjó. En þær áhyggjur hurfu eins og skot þegar boginn skiptigaffall í gírkassa endaði för þeirra. Þannig fór um sjóferð þá, gengur betur næst.

Aðra sögu er að segja af Vikari Karl Sigurjónssyni og Ragnari Magnússyni, þeir voru í góðum gír og keyrðu fantavel.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Ágúst Aðalbjörnsson og Sævar Már Gunnarsson

Næsta má nefna þá Ágúst Aðalbjörnsson og Sævar Má Gunnarsson. Allt lék í lyndi en á annarri sérleið rallsins ákváðu stimplar vélarinnar að flytja út, þeirra tími í þessari vélarblokk var liðinn og mikill hvellur setti punktinn á þátttöku þeirra í Orkurallinu. Gengur betur næst.

Á sama tíma voru Vikar og Ragnar oft hrikalega tæpir í köntunum en alltaf skiluðu þeir sér í mark.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Sigurður Bragi Guðmundsson og Águst Guðmundsson

Þeir Sigurður Bragi Guðmundsson og Águst Guðmundsson á MMC áttu ekki góða helgi, allavega ekki góða rallýhelgi. Olíuþrýstingur féll fljótlega og eftir að hafa ekið nokkrar leiðir með fallandi þrýsting ákváðu þeir að hætta keppni frekar en að stefna vélinni í hættu. Þeir Sigurður Bragi og Ágúst teljast e.t.v. öldungar keppninnar og vita hve mikilvægur þrýstingurinn er. Gengur betur næst.

En olíuþrýstingurinn hjá Vikari og Ragnari var í góðu lagi.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Gunnar Karl Jóhannesson og Ísak Sigfússon

Gunnar Karl Jóhannesson og Ísak Sigfússon eiga e.t.v. ekki heima í þessari upptalningu. Þeir leiddu rallið eftir fyrsta dag en á fyrstu ferð um Djúpavatn brotnuðu nipplar fyrir framdempara og bíllinn breyttist í skopparakringlu sem hentar ekki til rallaksturs. Þeirra hlutskipti varð þó annað sætið sem verður að teljast góður árangur. Gengur kannski betur næst.

Á sama tíma voru dempararnir í bíl Vikars og Ragnars í fínu lagi og þeir á fullri ferð um veginn og e.t.v. stundum næsta nágrenni vegarins.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Ragnar Bjarni Gröndal og Emilía Rut Hólmarsdóttir Olsen

Þau Ragnar Bjarni Gröndal og Emilía Rut Hólmarsdóttir Olsen á MMC voru á ágætri leið með að ná forustu í rallinu þegar afturhjólabúnaður umbreyttist í brotinn afturhjólabúnað og upprennandi hamingja hvarf eins og drifkraftur brotinnar driflæsingar. En þau Ragnar og Emilía eru miklir hamingju unnendur svo þau trúlofuðu sig bara eins og skot til að skemma ekki daginn. Að sjálfsögðu mætir þetta fólk í Hamingjurallið á Hólmavík sem er næsta keppni á dagatalinu.

_MG_2079
Vikar Karl Sigurjónsson og Ragnar Magnússon

Fréttaritara motorsport.is er ekki kunnugt hvort þeir Vikar og Ragnar hafi verið að hugsa um trúlofanir eða eitthvað álíka en eitthvað voru þeir annað að hugsa en akstur bílsins því þeir kútveltu honum og skipti engu þó dempararnir væru í fínu lagi, ekkert gat á olíusíu, enginn boginn skiptigaffall, hellingur af olíuþrýstingi á vélinni sem var með alla stimpla á sínum stað. Þeir bara kútveltu bílnum eins og þeir fengu borgað fyrir það, punktur. Gengur bara betur næst skulum við vona.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Toyota RAV4 þeirra Guðjóns Þórólfssonar og Magnúsar Inga Einarssonar

Þeir Guðjón Þórólfsson og Magnús Ingi Einarsson, oft kenndir við „Raviðnaðarsambandið“ settu bíl sinn á toppinn á Djúpavatni sem var skellur. Ekki bara bókstaflega heldur var líka mikill skellur að missa þá úr keppni en þeir höfðu ekið frábærlega þangað til. Gengur betur næst.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Almar Viktor Þórólfsson og Halldór Grétarsson, sjá afturhjól bílsins

Þeir Almar Viktor Þórólfsson og Halldór Grétarsson áttu góðan dag framan af og háðu mikla baráttu í AB varahlutaflokknum. Þeirra baráttu lauk eftir mislukkaða heimsókn í barð nokkuð á Djúpavatnsleiðinni, barð sem beygði afturspyrnu og e.t.v. eitthvað fleira í afturhjólabúnaði. Flottur akstur, gengur betur næst.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand og Þórður Bragason

Leave a Reply