Ótrúlegur Sunnudagur í Portúgal

Sjöunda umferð heimsmeistaramótsins í ralli fór fram í Portúgal um helgina. Mikið var um afföll á lokadegi keppninnar.

Ott Tanak á Toyota Yaris stóð uppi sem öruggur sigurvegari. Eistlendingurinn náði forustunni strax á þriðju sérleið og lét hana aldrei af hendi.

16323_Overall-Portugal-2019_001_896x504

Tveir helstu keppinautar Tanak um heimsmeistaratitil ökumanna komu svo á eftir honum. Annar varð Thierry Neuville, flott endurkoma eftir að Belginn velti Hyundai bíl sínum harkalega í síðustu keppni.

Þriðji varð Sebastian Ogier á Citroen C3 og leiðir Frakkinn því enn heimsmeistaramótið. Útlit var þó fyrir að hvorki Neuville né Ogier myndu komast á verðlaunapall en miklar sviptingar voru á Sunnudeginum.

16322_Drivers-Portugal-2019_001_896x504

Kris Meeke á Yaris var annar eftir laugardaginn, eftir að liðsfélagi hans, Jari-Matti Latvala varð frá að hverfa með bilaðan framdempara.

Á síðustu sérleið keppninnar, hinni sögufrægu Fafe leið, varð Meeke hinsvegar frá að hverfa eftir að hafa keyrt á stein.

Á sömu leið varð nýliðinn Gus Greensmith einnig frá að hverfa þegar aðeins 100 metrar voru í endamark. Stýrisendi brotnaði á Ford Fiesta bíl hans rétt áður en hann kom á fræga stökkpallinn við enda leiðarinnar, því missti Gus stjórn á bílnum í lendingunni, keyrði á kant og braut framhjól af bílnum.

Fyrr um daginn velti Esapekka Lappi Citroen bíl sínum, Finninn lenti þó á hjólunum og gat haldið áfram. En án afturvængsins vantaði Esapekka grip og klessti harkalega á kant með þeim afleiðingum að vinstra afturhjólabúnaðurinn skemmdist.

Úrslit helgarinnar þýða að Ogier heldur forustunni í keppni ökuþóra en nú er Tanak aðeins tveimur stigum á eftir Frakkanum. Neuville er aðeins átta stigum þar á eftir.

Hyundai heldur forustunni í heimsmeistaramóti bílaframleiðenda en Toyota hefur minnkað muninn í aðeins 20 stig.

16321_Manufacturers-Portugal-2019_001_896x504

Bragi Þórðarson

Leave a Reply