Allt í járnum fyrir ítalska rallið

Upphitun: Allt í járnum fyrir ítalska rallið

Áttunda umferðin í heimsmeistarakeppninni í ralli fer fram á Sardiníu á Ítalíu um helgina. Aðeins 10 stig skilja að efstu þrjá ökumennina á mótinu.

Nú er keppnistímabilið hálfnað og eftir ítalska rallið fer WRC í tæplega tveggja mánaða sumarfrí. Að venju eru það Sebastien Ogier, Ott Tanak og Thierry Neuville sem berjast um heimsmeistaratitilinn.

Ríkjandi heimsmeistarinn Sebastien Ogier leiðir mótið, en Frakkinn fór frá Ford yfir til Citroen fyrir keppnistímabilið.

Með Ford vann hann tvo titla og fyrir það vann hann fjóra í röð með Volkswagen. Ogier gæti því jafnað met Juha Kankkunen í ár með því að verða heimsmeistari með þremur mismunandi bílaframleiðendum.

Til að það gerist þarf Ogier á góðum úrslitum að halda um helgina. Sigur í Sardiníu er hinsvegar út úr myndinni segir Sebastien. ,,Þar sem við ræsum fyrstir eigum við enga möguleika á sigri miðað við hversu mikið vegirnir hérna hreinsast milli bíla,’’ sagði Frakkinn í viðtali fyrir rallið.

Sniðug taktík hjá Tanak og Toyota

Annar á eftir Ogier ræsir Ott Tanak á Toyota Yaris. Eistinn er aðeins tveimur stigum á eftir Frakkanum í mótinu eftir að hafa vísvitandi hægt á sér á síðustu leiðinni í Portúgal.

Það gerði Tanak í þeim tilgangi að skora færri stig á ofurleiðinni, einmitt til þess að þurfa ekki að ræsa fyrstur á sólríku Miðjarðarhafseyjunni um helgina.

Thierry Neuville á Hyundai i20 situr svo átta stigum á eftir Tanak. Belginn tapaði fullt af stigum er hann varð frá að hverfa í Síle eftir harkalega veltu. Fyrir vikið er hann tíu stigum á eftir fyrsta sætinu. 25 stig fást fyrir sigur og á Neuville góða möguleika en hann ræsir þriðji um helgina.

Þessir þrír ökumenn verða að öllum líkindum að berjast um sigur, þó kannski síst Ogier. Svo má ekki gleyma ökumönnum eins og Elfyn Evans og Kris Meeke, báðir hafa þeir unnið röll en eru sigurlausir á tímabilinu. Evans er nú ökumaður númer eitt hjá M-Sport Ford liðinu og Meeke kom nýr inn í Toyota liðið í vetur.

Bragi Þórðarson

Leave a Reply