KFC torfæran

_MG_4155
Þór Þormar æfir reglulega í þessum gryfjum og þekkir þær því betur en aðrir.

Bílaklúbbur Akureyrar hélt sína árlegu bíladaga um helgina og var KFC torfæran einn dagskrárliðurinn.

_MG_4326
Rykið setti sinn svip á keppnina.

Keppnin fór fram í skraufþurrum gryfjum efst á keppnissvæði klúbbsins og setti ryk svolítið strik í reikninginn, einkum hjá ökumönnum og ljósmyndurum en áhorfendur sluppu ágætlega þar sem vindátt var þeim hagstæð þennan daginn.

Keppnin um Íslandsmeistaratitilinn átti athygli fréttaritara motorsport.is og munum við einna helst fjalla um þá keppendur sem þar eru líklegastir.

_MG_4333
Geir Evert leiddi mótið nokkuð sannfærandi en tapaði forskotinu.

Menn til alls líklegir

Geir Evert Grímsson á Sleggjunni leiddi mótið eftir sigur á Hellu en Ingólfur Guðvarðarson sem kom næstur þar á eftir var ekki með á Akureyri. Ingólfur fór í aðgerð á öxl og verður ekki með fyrr en öxlin verður komin í lag. Þetta gerði í raun ekkert annað en að auka forskot Geirs. Haukur Viðar Einarsson á Heklu var þriðji og svo má alls ekki útiloka Þór Þormar Pálsson á THOR, hann er ríkjandi Íslandsmeistari og til alls líklegur.

_MG_4149
Hér er keppnisstjóri, Valdimar Geir Valdimarsson, að losa einn þeirra sem festu sig í fyrstu braut.

Margir keppendur lentu í vandræðum í fyrstu braut; lítið barð í upphafi reyndist skeinuhætt og settust margir á kviðinn þar. Þeir fáu sem komust yfir það stoppuðu svo á litlu stáli nærri endamarki. Þór Þormar var annar tveggja keppenda sem komst upp þetta barð, hann stökk reyndar hátt og glæsilega en lendingin var hörð og stýrisbúnaður bílsins brotnaði svo Þór fór ekki lengra en hann var þar með kominn með forystu. Guðbjörn Grímsson á Kötlu komst líka upp barðið, að því er virtist fyrirhafnarlaust. Alexander Már Steinarsson á Guttanum Reborn (lánsbíll) fylgdi fast á hæla Þórs, aðeins 10 stigum á eftir, líkt og Guðbjörn á Kötlu og Jón Vilberg Gunnarsson á Lightfoot; bíll sem er nýr í Íslandsmótinu. Geir Evert á Sleggjunni festi bílinn á barðinu í upphafi brautarinnar og möguleikar hans á sigri dofnuðu verulega fyrir vikið.

Það stefndi í hörkukeppni en Þór Þormar var á annarri skoðun.

_MG_4218
Alexander Már Steinarsson átti glæsilega endurkomu á lánsbíl.

Tignarleg velta og sól í augu ökumanna

Næsta braut var um margt svipuð þeirri fyrstu en þar fóru fleiri ökumenn alla leið. Bæði Þór Þormar og Geir Evert voru í þeim hópi. Stefán Bjarnhéðinsson á Kalda fór langleiðina upp en valt tignarlega niður aftur og Guðbjörn Grímsson á Kötlu gerði harða atlögu að ljósmyndurum og starfsmönnum keppninnar þegar hann fór ranga leið upp. Engin hætta var á ferð en sólin skein beint í augun á ökumönnum og rykið byrgði þeim einnig sýn. Jón Vilberg á Lightfoot féll niður í sjöunda sæti og Guðbjörn á Kötlu niður í þriðja sætið en Haukur Viðar Einarsson á Heklu náði bestum árangri og skaust upp í annað sætið, samt heilum 90 stigum eftir fyrsta sætinu þar sem Þór Þormar sat sem fastast.

_MG_4191
Haukur Viðar Einarsson að glíma við stál í fyrstu braut.

Geir evert á Sleggjunni gerði tilraun til að stimpla sig inn í toppslaginn í þriðju braut sem var tímaþraut. Hann komst upp í annað sætið en náði ekki að fylgja því eftir og hafnaði að lokum í fimmta sæti.

_MG_4506
Blátt ský elti Guðbjörn Grímsson þar til vélin gafst upp.

Guðbjörn á Kötlu fagnaði ekki mikið þennan daginn; biluð vél stytti þátttöku hans niður í tvær brautir sem er nokkrum brautum minna en til stóð.

Galopin staða

Jón Vilberg á Lightfoot átti mjög misjafnan dag. Hann náði fínum árangri í sumum brautum en afleitum þess á milli; var í öðru sæti eftir fyrstu braut og tíunda sæti eftir þá þriðju. Hann endaði keppnina samt í fjórða sæti og rétt er að fylgjast með honum í framtíðinni.

_MG_4247
Jón Vilberg á Lightfoot, nýr bíll í íslenska torfæruflotanum.

Svo fór að Þór Þormar á THOR vann keppnina frekar örugglega. Alexander Már Steinarsson átti glæsilega endurkomu á bíl Ingólfs Guðvarðarsonar, Guttanum Reborn. Alexander sýndi frábæra takta í síðustu brautinni og bolaði Hauki Viðari Einarssyni á Heklu þar með niður í þriðja sætið.

Staðan í Íslandsmótinu er því orðin galopin. Þeir Þór Þormar, Geir Evert og Haukur Viðar eru nú jafnir um titil og ljóst að allt verður lagt undir í næstu keppni sem fer fram á Blönduósi eftir hálfan mánuð, þann 29. júní.

Yfirburðir í götubílaflokki

Steingrímur Bjarnason hafði fádæma yfirburði og vann með 725 stiga mun sem túlka má sem talsverða yfirburði meðan Þór Þormar vann með 253 stiga mun í flokki sérútbúinna bíla.

_MG_4295
Steingrímur Bjarnason var nánast ósnertanlegur í þessari keppni.

 

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply