
Harðnandi slagur í götubílaflokki
Steingrímur Bjarnason hafði aðeins tveggja stiga forskot í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Hann vann síðustu keppni með yfirburðum, hafnaði í öðru sæti á Hellu en þar tapaði hann fyrir Óskari Jónssyni á Úlfinum.

Snæbjörn Hauksson mætti á bíl föður síns, Hauks Birgissonar. Sá bíll kallast Þeytingur og þrátt fyrir litla reynslu náði Snæbjörn að velgja þeim Steingrími og Óskari vel undir uggum. Jón Ingibergur Guðmundsson á Pjakknum var aðeins á eftir hinum þremur en Pjakkurinn vildi ekki klára daginn, bilanir í drifrás enduðu þátttöku hans í upphafi tímabrautar.

Einungis 5 stig skildu þá Snæbjörn og Steingrím að þegar komið var að sjöttu og síðustu þraut, 350 stig voru í pottinum og ljóst að allt yrði lagt undir. Óskar á Úlfinum dróst aðeins aftur úr en átti samt möguleika, hann var 205 stigum á eftir Steingrími.

Engin mistök leyfð
Steingrímur vissi sem var að hann myndi hagnast verulega á því að vinna sigur og fá Snæbjörn í annað sætið því þá myndi hann koma sínum helsta keppinaut um titilinn, Óskari Jónssyni á Úlfinum, niður í þriðja sætið. Þeir Steingrímur og Óskar fuku upp síðustu brautina meðan Snæbjörn sat fastur um miðbik hennar. Hér kom reynsluleysi Snæbjörns í ljós og von um sigur hvarf sem dögg fyrir sólu.

Eftir stóð sigurreifur Steingrímur en þrátt fyrir frábæran akstur í síðustu þrautinni tókst Óskari ekki að ná öðru sætinu af Snæbirni. Niðurstaðan því sú að Steingrímur vann, Snæbjörn varð annar og Óskar hafnaði í þriðja sæti. Fullkomin úrslit fyrir Steingrím en afleit fyrir Óskar.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand og Þórður Bragason