Blönduós götubílar

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Það vantar ekki vélaraflið í Strumpinn, það vantar heldur ekki kjarkinn hjá Steingrími.

Harðnandi slagur í götubílaflokki

Steingrímur Bjarnason hafði aðeins tveggja stiga forskot í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Hann vann síðustu keppni með yfirburðum, hafnaði í öðru sæti á Hellu en þar tapaði hann fyrir Óskari Jónssyni á Úlfinum.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Snæbjörn sat fastur í upphafi annarrar þrautar og segja má að þar hafi sigurinn tapast.

Snæbjörn Hauksson mætti á bíl föður síns, Hauks Birgissonar. Sá bíll kallast Þeytingur og þrátt fyrir litla reynslu náði Snæbjörn að velgja þeim Steingrími og Óskari vel undir uggum. Jón Ingibergur Guðmundsson á Pjakknum var aðeins á eftir hinum þremur en Pjakkurinn vildi ekki klára daginn, bilanir í drifrás enduðu þátttöku hans í upphafi tímabrautar.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Jón Ingibergur vill eflaust bara gleyma þessum degi og bíða eftir næstu keppni.

Einungis 5 stig skildu þá Snæbjörn og Steingrím að þegar komið var að sjöttu og síðustu þraut, 350 stig voru í pottinum og ljóst að allt yrði lagt undir. Óskar á Úlfinum dróst aðeins aftur úr en átti samt möguleika, hann var 205 stigum á eftir Steingrími.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Snæbjörn komst ekki jafn langt upp sjöttu þraut og keppinautar hans.

Engin mistök leyfð

Steingrímur vissi sem var að hann myndi hagnast verulega á því að vinna sigur og fá Snæbjörn í annað sætið því þá myndi hann koma sínum helsta keppinaut um titilinn, Óskari Jónssyni á Úlfinum, niður í þriðja sætið. Þeir Steingrímur og Óskar fuku upp síðustu brautina meðan Snæbjörn sat fastur um miðbik hennar. Hér kom reynsluleysi Snæbjörns í ljós og von um sigur hvarf sem dögg fyrir sólu.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Óskar náði ekki að sýna sitt rétta andlit, eitthvað vantaði og þriðja sætið varð niðurstaðan.

Eftir stóð sigurreifur Steingrímur en þrátt fyrir frábæran akstur í síðustu þrautinni tókst Óskari ekki að ná öðru sætinu af Snæbirni. Niðurstaðan því sú að Steingrímur vann, Snæbjörn varð annar og Óskar hafnaði í þriðja sæti. Fullkomin úrslit fyrir Steingrím en afleit fyrir Óskar.

P6292055
Steingrímur kútvelti bílnum við endamark fjórðu brautar og var bara hæstánægður.

 

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand og Þórður Bragason

Leave a Reply