Torfæran á Blönduósi

_MG_5330Óhætt er að fullyrða að áhorfendur fengu mikið fyrir sinn snúð í dag þegar Bílaklúbbur Akureyrar hélt torfærukeppni á Blönduósi.

Börðin litu hrikalega út. Það var aldrei spurning; margir myndu velta og tilþrifin yrðu svakaleg.

Keppnin um titilinn

Þór Þormar Pálsson á THOR, Geir Evert Grímsson á Sleggjunni og Haukur Viðar Einarsson á Heklu voru allir jafnir í slagnum um titil. Það mátti líka búast við að aðrir stælu senunni og jafnvel mátti búast við að einhver allt annar ynni keppni dagsins. Sú varð nærri raunin; Ingólfur Guðvarðarson á Guttanum Reborn mætti til leiks eftir að hafa sleppt síðustu keppni vegna aðgerðar á öxl. Öxlin komst í lag og Ingólfur gerði sér lítið fyrir og stefndi á sigur en mistök í síðustu braut kostuðu þann sigur og annað sætið varð Ingólfs. Það er kannski ósanngjarnt að kalla það mistök hjá Ingólfi, hann kastaðist frá barði þar sem næsti bíll á undan hafði skilið eftir djúp för. Ljósmyndarar sem fylgdust með voru á sama máli; þetta væri mjög slæmt fyrir næsta bíl sem var einmitt Ingólfur.

_MG_5612

Einungis einn þeirra þriggja sem leiddu mótið komst á verðlaunapall. Það var Haukur Viðar á Heklu sem gerði sér lítið fyrir og vann þessa keppni. Sú staðreynd að hvorki Þór Þormar né Geir Evert komust á pall setur Hauk í þægilega stöðu í Íslandsmótinu, samt er rétt að benda á að það er langt í land og titill langt utan seilingar.

_MG_5377

Geir Evert átti reyndar ágætan dag framan af, en þeim ágætum lauk skyndilega þegar svokölluð „Flex plata“ brotnaði og afl vélarinnar skilaði sér ekki til hjólanna. Þór Þormar átti sömuleiðis ágætan dag en hann gerði nokkur mistök sem kostuðu hann dýrmæt stig.

Jöfn keppni

Torfæran í dag skartar svo mörgum keppendum sem eru færir um að vinna keppnir að minnstu mistök geta kostað mörg sæti og því fékk Þor Þormar að kynnast í dag.

 

_MG_5159

Guðmundur Elíasson á Ótemjunni hefur sýnt að hann á fullt erindi í toppbaráttuna. Árangur dagsins var þriðja sætið og hann er vel að því kominn eftir flottan akstur og fá mistök. Vissulega má alltaf finna einhver atriði en þriðja sætið er góð staðfesting á því að hér er toppökumaður á ferð.

_MG_5201

Haukur Viðar Einarsson á Heklu vann í dag og er vel að sigrinum kominn. Jafn og mistakalítill akstur á góðum bíl var töfrablanda dagsins.

Texti: Þórður Bragason
Myndir: Malín Brand

Leave a Reply