WRC fréttir

WRC byrjað aftur eftir sumarfrí

Tæpir tveir mánuðir eru liðnir frá því síðasta umferðin í heimsmeistarakeppninni í ralli fór fram. Um helgina heldur veislan áfram þegar að níunda umferðin fer fram í Finnlandi.

Keppnin er ein sú sögufrægasta ár hvert enda er rallakstur þjóðaríþrótt Finna. Í ár eru það ungstirnin Esapekka Lappi og Teemu Suninen ásamt reynsluboltanum Jari-Matti Latvala sem eru á heimavelli og fá því dyggan stuðning heimafólksins.

Í keppni ökuþóra býtast þeir Ott Tanak, Sebastian Ogier og Thierry Neuville um titilinn. Aðeins sjö stig skilja að þremeninganna og er það Tanak sem leiðir.

Ott kemur til Finnlands með sjálfstraustið í botni eftir að hafa staðið uppi sem sigurvegari í heimakeppni sinni fyrir tveimur vikum. Helgin byrjar vel hjá Eistlendingnum sem var hraðastur á upphitunarleiðinni í dag.

Drama á ökumannsmarkaðnum

Ljóst var fyrir keppnina að Hyundai þyrftu að finna sér ökumann í þriðja bíl sinn. Það verður að teljast einkennilegt þó þar sem liðið hefur á samning fjóra heimsklassa ökumenn. En þar sem bæði Sebastian Loeb og Dani Sordo hafa engan áhuga á að keppa í Finnlandi varð liðið að róa á önnur mið.

Flestir bjuggust við að fyrrum ökuþór liðsins, Nýsjálendingurinn Hayden Paddon, fengi sætið. Það varð ekki raunin þar sem hinn 29 ára gamli Craig Breen var valinn. Frábært tækifæri fyrir Írann sem missti sætið sitt hjá Citroen fyrir þetta tímabil.

Paddon var allt annað en sáttur með fyrrum kollega sína hjá heimsmeistaraliði Hyundai. Nýsjálendingurinn hefur þó alltaf fengið mikinn stuðning hjá Hyundai í heimalandinu og varð raunin sú að fyrirtækið styrkti Paddon til keppni í Finnlandi.

Afföll áður en keppni hefst

Þrátt fyrir að aðalstyrktaraðili Paddon væri Hyundai í Nýja-Sjálandi var Hayden skráður til leiks á M-Sport Ford Fiestu. Gamanið var þó stutt því á æfingu fyrir keppnina kútvelti Paddon Fordinum með þeim afleiðingum að hann verður ekki með um helgina.

Sömu sögu er að segja af Elfyn Evans. Ungi bretinn situr nokkuð örugglega í fjórða sæti í mótinu en verður ekki með um helgina. Ástæða er sú að eftir harkalega lendingu í eistlenska rallinu fyrir tveimur vikum slasaðist Bretinn á baki. Hann verður þó tilbúin til leiks í næstu keppni.

Rallið hefst í dag, Fimmtudag, er ekin verður ein stutt áhorfendaleið. Gamanið hefst svo að fullri alvöru í fyrramálið er eknar verða tíu sérleiðir. Að venju lýkur keppni um hádegisbil á sunnudag með ofurleiðinni. Hægt er að fylgjast með öllum leiðum í þráðbeinni með áskrift af WRC All Live.

Bragi Þórðarson

Leave a Reply