Öruggur sigur
Eistarnir Ott Tanak og Martin Jarveoja stóðu uppi sem öruggir sigurvegarar á Toyota Yaris í finnska rallinu um helgina.
Keppnin er heimakeppni Toyota Gazoo Racing og var fjórfaldi heimsmeistarinn Tommi Makinen, liðsstjóri liðsins, himinlifandi með árangurinn.
,,Að fá tvo bíla á verðlaunapall hérna í Finnlandi er algjör draumur“ sagði Tommi eftir keppni. Jari-Matti Latvala endaði þriðji, einnig á Toyota.
Í öðru sæti urðu Esapekka Lappi og Jarne Ferm á Citroen C3, árangurinn kom á góðum tíma fyrir Finnana. Mikil pressa var á Lappi og Ferm fyrir keppnina þar sem árangur þeirra á fyrri hluta tímabilsins hefur ekki verið nægilega góður.
Lengi vel voru allir þrír Toyota bílarnir á verðlaunapalli en Kris Meeke keyrði útaf á öðrum degi og féll úr leik.
Tanak kominn í góða stöðu
Bæði Sebastien Ogier og Thierry Neuville áttu slæma helgi í Finnlandi. Að lokum endaði Neuville sjötti og Ogier fimmti.
Úrslitin þýða að Tanak hefur náð nokkuð góðu forskoti í keppni ökuþóra. Forskot hans á ríkjandi heimsmeistara, Sebastien Ogier, er komið í 22 stig. Neuville kemur svo þremur stigum á eftir Ogier.
Í keppni bílasmiða hefur Toyota minnkað forskot Hyundai verulega. Hyundai eru nú aðeins 24 stigum á undan japanska framleiðandanum, Citroen og Ford hafa dregist talsvert aftur úr.
Næsta keppni fer fram á malbikinu í Þýskalandi helgina 22. – 25. ágúst.
Bragi Þórðarson