Greifatorfæran 2019

Tveir keppendur mættu með horn og hala, ætluðu sér sigur og Íslandsmeistaratitil. Þetta voru þeir Þór Þormar Pálsson á THOR og Haukur Viðar Einarsson á Heklu. Þór leiddi mótið en Haukur var litlum 4 stigum á eftir. Það þýðir að Þór þurfti ekki nauðsynlega að vinna en hann mátti ekki vera langt á eftir Hauki; best að vinna bara enda hefur hann verið sterkur í gryfjunum á keppnissvæði Bílaklúbbs Akureyrar undanfarið.

Aðrir keppendur ætluðu sér líka sigur, vissulega, en þessi keppni snerist að mestu um einvígi þessara tveggja.

Þetta er það sem gerðist

Í fyrstu braut tók Aron Ingi Svansson forystuna á Stormi. Honda mótorinn skilaði sínu og Stormurinn lofaði góðu framhaldi. Haukur Viðar kom 20 stigum á eftir og Þór Þormar á THOR 40 stigum eftir Hauki. Ekki góð byrjun hjá Þór en þetta var nú bara fyrsta braut og allt átti eftir að gerast.

_MG_6903
Aron ingi byrjaði vel en hafnaði að lokum í 10 sæti.
_MG_6851
Ingólfur Guðvarðarson var eini keppandinn sem fór refsilaust upp aðra braut.

Ingólfur Guðvarðarson á Guttanum Reborn kom sterkur inn í annarri braut og fór alla leið án refsingar, 350 stig og skaust upp í annað sætið úr því níunda. Þór Þormar gerði skelfileg mistök og tapaði mörgum stigum; var kominn í áttunda sæti og Haukur Viðar á Heklu virtist vera að komast í þægilega stöðu. Hann var í fyrsta sæti en vissulega var keppnin bara rétt að byrja.

_MG_6893
Geir Evert Grímsson átti ágætan dag og hafnaði í fjórða sæti.

Geir Evert Grímsson á Sleggjunni náði flestum stigum í tímabrautinni sem var næst. Hann náði besta tíma og þrátt fyrir tíu refsistig fákk hann flest stig fyrir brautina. Þór Þormar kom næstur og Haukur Viðar stutt á eftir. Þór var búinn að vinna sig upp í fjórða sætið en það var alls ekki nóg, hann þurfti að halda vel á spöðunum.

Nýliðinn baular á reynsluboltana

_MG_7348-2
Grétar Óli Ingþórsson á fleygiferð upp eina brautina.

Lið Grétars Óla Ingþórssonar á Kötlu hafði náð að laga bílinn í hádegishléinu en bíllinn var ekki alveg tilbúinn þegar þeir mættu með bílinn á svæðið. En Grétar Óli sótti flest stig allra í fjórðu braut. Bíllinn sem Guðbjörn Grímsson smíðaði í vetur er greinilega ekki galin smíði. Geir Evert á Sleggjunni og Skúli Kristjánsson á Simba komu þar á eftir en þeir erkifjendur, Haukur Viðar og Þór Þormar, komu í fjórða og fimmta sæti og féllu báðir um eitt sæti. Tíðindin voru þau að Grétar Óli var kominn í fyrsta sætið. Grétar Óli hefur ekki mikla keppnisreynslu af torfærunni og er hér kallaður nýliði sem er alls ekki fjarri lagi.

Svo kom að forystusauðirnir í Íslandsmótinu náðu að sýna að þeir gátu gert eitthvað annað en að klúðra málum og trónuðu þeir á toppnum í fimmtu braut, báðir með 340 stig en þar með skaust Haukur Viðar aftur í fyrsta sætið meðan Þór Þormar sat í þriðja sætinu en það þýddi að Haukur yrði Íslandsmeistari að óbreyttu.

En svo gerðist þetta

Sjötta brautin var þrautin þyngri og sínu þyngri fyrir suma en aðra ef rétt er að brautin hafi breyst þegar þrír varhugaverðir steypuklumpar voru fjarlægðir í lokabarðinu þegar þrír bílar áttu eftir að keyra brautina.

Haukur Viðar var fyrstur í sjöttu braut, síðustu brautina. Í fáum orðum þá klúðraði hann málum rækilega í upphafi brautar. Líkt og Þór Þormar í annarri braut kastaði hann dágóðum slatta af stigum í ruslið. Það er skoðun fréttaritara að taugar þeirra beggja hafi gefið undan í þessarri keppni, mistökin sem þeir gerðu eru ólík þeim og bera meiri keim af pressunni sem fylgir toppslagnum.

En ekki var öll nótt úti fyrir Hauk Viðar; hann var með 88 stiga forskot og náði 90 stigum svo Grétar Óli þurfti 179 stig til að vinna Hauk og færa Þór Þormar titilinn. Þór átti enga möguleika á að vinna titilinn einn og sjálfur.

Svo gerðist umdeildur atburður. Þegar 3 bílar áttu eftir að keyra brautina komu nefndir steypuklumpar í ljós og voru þeir fjarlægðir. Það þurfti stórvirka vinnuvél í nokkra stund til að ná þeim burt og laga brautina aftur. Undirritaður horfði á keppendur reyna við lokabarðið og allir skoppuðu þeir til vinstri eða hægri, leiðin beint upp í hliðið var ófær að því er virtist. Grétar Óli var einn þeirra þriggja sem átti eftir að keyra og komst hann alla leið; hann var eini keppandinn sem komst alla leið og tryggði sér sigur þar með og færði Þór Þormar Íslandsmeistaratitilinn.

En eins og áður segir er þetta umdeilt og kæra var lögð fram, kæra sem er til meðferðar hjá Akstursíþróttasambandinu.

Við verðum því að bíða eitthvað með að kynna Íslandsmeistara en til að halda stemningunni þykir okkur hjá motorsport.is fullkomlega viðeigandi að hygla Grétari Óla fyrir frábæra frammistöðu. Sigur eða ekki er ekki í hans höndum en sannarlega stóðu hann og lið hans sig frábærlega og eiga mikið hrós skilið.

Þess skal getið að umræddir steypuklumpar voru fjarlægður af góðri og gildri ástæðu. Öryggi keppenda, starfsfólks og áhorfenda er ávallt í fyrsta sæti. Hafi keppnishaldari gert mistök, skrifast þau á öryggisvitund þeirra Norðlendinga og það á að hrósa fólki fyrir að setja öryggið í fyrsta sæti. Við getum alltaf leiðrétt úrslit keppna og kyngt smá stolti en við getum ekki bakkað aftur í tímann og afstýrt slysi.

_MG_7168-2
Keppnisstjóri og brautarstjóri ræða málin.

Texti: Þórður Bragason

Ljósmyndir: Malín Brand

 

Leave a Reply