Til hvers reglur?

Pistill ritstjóra

Undanfarið hef ég skoðað reglur í torfæru og hvernig þeim hefur verið beitt. Nýlega hafa tvö atvik komið upp þar sem reglur hefðu átt að vera í aðalhlutverki og ég ætla að fjalla aðeins um þau hér.

Fyrst er atvik í Akranesstorfærunni í ár þar sem ranglega var úrskurðað um hver væri sigurvegari í götubílaflokki. Hitt atvikið átti sér stað í Greifatorfærunni á Akureyri fyrir skemmstu.

Byrjum á Akranesi. Tveir keppendur ljúka keppni með jafn mörg stig. Annar er ranglega úrskurðaður sigurvegari og þannig voru úrslit birt að keppni lokinni. Án þess að fullyrða neitt ætla ég að kærufrestur hafi verið kynntur og honum lokið, eins og venjulega. Nokkru síðar, mörgum dögum reyndar, eru önnur úrslit kynnt með öðrum sigurvegara. Hér voru gerð nokkur mistök, mér telst til að um þrenn mistök sé að ræða.

  1. Rangur sigurvegari er kynntur þar sem farið var eftir bestu vitund eins dómara keppninnar. Hann sagði reglur vera svona en svo reyndist ekki vera.
  2. Önnur mistök voru keppandans sem átti að vera réttur sigurvegari skv reglum. Hann hvorki kærði úrslitin né gerði athugasemd við þau.
  3. Þriðju mistökin voru að breyta úrslitum löngu eftir að keppni lauk.

Hér er bara um heillanga röð mistaka að ræða; mistök sem má túlka sem vanvirðingu við reglur og auðveldlega má ætla að núverandi úrslit standist ekki reglur.

Vindum okkur norður yfir heiðar og skoðum næstu mistök. Þar létu starfsmenn keppninnnar breyta einni braut í öryggisskyni. Ég tek það skýrt fram að ég ætla alls ekki að kalla þá aðgerð mistök: Að hugsa um öryggi keppenda, starfsfólks og áhorfenda á alltaf að vera númer eitt, sama hvað það kostar.

En svo hefst önnur röð mistaka sem virðist koma til vegna þekkingarleysis á reglum og/eða reglur ekki nógu skýrar eða bara alls ekki nothæfar til keppni (meira um það neðar í pistlinum).

Keppandi kærir framkvæmd keppninnar, að brautinni hafi verið breytt. Keppandinn kann ekki að úrbúa kæru og útfyllir hana á algerlega óviðunandi hátt og alls ekki skv reglum. Samt virðist kæran hafa verið móttekin og birt á stað sem mátti skilja sem „Upplýsingatöflu keppninar“ þótt sú tafla væri hvergi kynnt en hún á að vera kynnt í auglýsingu keppninnar á vef AKÍS. Kæran fer til dómnefndar sem svarar henni með tveimur svörum svo best ég veit. Annars vegar er henni hafnað þar sem hún sé ekki rétt að forminu til en einnig er henni svarað efnislega líkt og kæra sem tekin er fyrir og þar með tekin góð og gild að forminu til. Svar dómnefndar er birt á formi sem er ekkert í líkingu við það form sem slíkt svar á að berast á skv reglum AKÍS um slík svör. Keppandi áfrýjar þessu máli til AKÍS og þar er málið í dag. Á sama tíma birtir keppnishaldarinn, BA, tilkynningu, að dómnefnd hafi ekki borist áfrýjun og lýsir yfir að úrslit keppninnar standi. Þar vísar keppnishaldarinn í keppnisreglur í torfæru en ef grannt er skoðað skarast þær og keppnisreglur AKÍS sem er afar slæmt svo ekki sé meira sagt.

BA-Yfirlýsing
Tilkynning Bílaklúbbs Akureyrar (skjáskot af facebook síðu klúbbsins)

Ég ætla ekki að rekja þetta mál frekar enda er ekki ætlunin að leysa það hér.

Hvað er að?

Hve margir keppendur og keppnishaldarar kunna reglur nógu vel til að geta nýtt sér þær þegar á hólminn er komið? Dæmin að ofan benda til þess að hvorki keppendur, dómarar né keppnishaldarar séu með reglurnar á hreinu.

Ef við brjótum þessi atvik niður og útskýrum hvert og eitt þá:

  1. (Akranes) Dómari bendir á rangan keppanda sem sigurvegara því dómarinn kunni ekki reglurnar, enginn nærstaddur vissi betur né hafði það í sér að efast og kanna málið.
  2. (Akranes) Keppandinn sem átti réttilega að vera kynntur sem sigurvegari kærði hvorki né gerði athugasemd því hann þekkti ekki reglurnar eða hafði fyrir því að fletta þeim og athuga.
  3. (Akranes) Úrslit eru „leiðrétt“ löngu síðar og mér er bara lífsins ómögulegt að sjá neitt í reglum sem leyfir það þó réttlætanlegt sé. Við skulum ekki gleyma að reglur eru ekki alltaf réttlátar, en það réttláta í reglum er það að þær eiga að gilda jafnt um alla. Það er ekkert réttlátt að fá refsistig fyrir að keyra yfir stiku, en réttlætið í þessu er að það sama gildir um alla.
  4. (Akureyri) Keppnishaldari átti að útvega keppanda tilbúið form til að skila inn kæru. Það form var ekki til staðar, það form er reyndar hvergi finnanlegt, í það minnsta ekki í reglum. Auðvitað ætti þetta form að vera hluti af reglum enda vísað til þess þar.
  5. (Akureyri) Keppandinn kunni ekki að útbúa kæru því hann kunni ekki reglurnar en þar eru þó lýsingar á því hvað skal koma fram í kæru.
  6. (Akureyri) Í reglum er vísað á tiltekið skjal sem er form dómnefnda til að svara kærum. Svar dómnefndar var ekki á slíku formi, samt er skjalið aðgengilegt á reglusíðum AKÍS og vísað á það í reglum AKÍS.
  7. (Akureyri) Áfrýjun keppandans er skilað til AKÍS en sú áfrýjun berst dómnefnd ekki og því er yfirlýsing keppnishaldara lögleg en skömmin er alfarið AKÍS megin sem lúrir á upplýsingunum og lætur engan vita af aðsendri áfrýjun.

Blessaðar reglurnar

Ég hef lesið keppnisreglur í torfæru og verð að segja að ég myndi tæplega treysta mér til að halda keppni eftir þeim, hvað þá dæma í vafamálum. Mér hefur dottið í hug að bjóða krafta mína til að vinna á þessu bragarbót. Sjálfur hef ég skrifað reglur í rallý, bæði keppnisreglur og flokkareglur. Ég ætla ekki að lýsa þeim sem fullkomnum, alls ekki, en það vantar svo margt í torfærureglurnar að mér hreinlega fallast hendur þegar ég les þær. En mínir kraftar og þekking eru ekki umræðuefni hér; ég er bara verðandi keppandi eins og er.

Er þá ekki bara málið að laga blessaðar reglurnar?

Ef ég hefði trú á því að það eitt dygði þá væri ég bjartsýnn en stöldrum aðeins við. Svo virðist að hvorki keppendur, keppnishaldarar, dómarar, dómnefndir né AKÍS hafi nokkurn áhuga á reglum, allavega miðað við það sem að ofan er ritað. Til hvers að vera með reglur sem enginn fer eftir?

Höfundur hefur starfað og keppt í ýmsum greinum akstursíþrótta frá árinu 1991. Setið í keppnisstjórnum, dómnefndum, verið formaður BÍKR og stjórnarmaður AKÍS sem og nefndarinnar (LÍA/ÍSI) sem var undanfari AKÍS.

Kv.
Þórður Bragason

Hlekkir:

AKÍS, Lög og reglur

AKÍS Reglur um dómnefndir

Keppnisreglur AKÍS

Keppnis- og flokkareglur í torfæru

Leave a Reply